Framkvæmdu ekki lánshæfismat

Jim Smart

Fjármálaeftirlitið hefur gert nokkrar athugasemdir eftir athugun á útlánum hjá  Sparisjóði Austurlands hf. 

Markmiðið var að kanna gæði útlánasafns sparisjóðsins. Könnuð voru útlán og veittar ábyrgðir er námu um 1.366,1 milljónum króna eða 49,6% af útlánasafni sjóðsins. Sérstök áhersla var lögð á að skoða útlán hjá tuttugu lánþegum sem voru með hæstu skuldbindingar gagnvart sjóðnum sem og aðila tengda þeim. Niðurstöður athugunarinnar lágu fyrir í júní 2016 og miðast við 30. september 2015.

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að ekki hafi verið til staðar skjalfest verklag hjá sparisjóðnum til að stýra framkvæmd og úrvinnslu lánaákvarðana og að sjóðurinn hafði ekki sett sér skjalfest töluleg viðmið um hámarksveðsetningarhlutfall veðandlaga.

Einnig var gerð athugasemd við að í lánareglum sparisjóðsins væri ekki nægilega skýrt tilgreint í hvaða tilvikum væri heimilt að hvika frá ákvæðum reglnanna um tryggingar og var það ekki talið samrýmast góðum viðskiptaháttum og venjum á fjármálamarkaði.

Eftirlitshlutverki ekki sinnt

Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemd við að upplýsingagjöf til stjórnar sparisjóðsins um útlánaáhættu og framgang áhættustýringar væri ekki í samræmi við innri reglur sparisjóðsins og því hefði stjórn sparisjóðsins ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti.

Þá var gerð athugasemd við að skjalfest verklag til að styðja við framkvæmd áhættustýringar sparisjóðsins hafi ekki verið til staðar.

Að lokum var gerð athugasemd við að lánshæfismöt höfðu ekki verið framkvæmd í nokkrum tilvikum við lánveitingar til einstakra aðila.

Þá segir Fjármálaeftirlitið að framkvæmd sparisjóðsins við mat á almennu afskriftarframlagi samrýmist hvorki afskriftarreglum sjóðsins né reglum um reikningsskil fjármálafyrirtækja.

Fjármálaeftirlitið hefur gert kröfur um að Sparisjóður Austurlands hf. geri viðeigandi úrbætur vegna athugasemdanna. Óskað hefur verið eftir því að innri endurskoðandi sparisjóðsins framkvæmi úttekt á úrbótum og skili Fjármálaeftirlitinu greinargerð í nóvember 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK