Ábyrgð flytjenda skýr í lögum

Mál konu sem fékk ekki kerru sína bætta úr hendi …
Mál konu sem fékk ekki kerru sína bætta úr hendi WOW vakti athygli í vikunni. mbl.is/Golli

Bótaréttur farþega þegar farangur skemmist í flugi er ekki takmarkaður þannig að tjónið verði að tilkynna á flugvelli í loftferðalögum. WOW neitaði á dögunum að bæta konu tjón á barnakerru sem hún segir að skemmst hafi í flugi.

Konan var á ferðalagi til Lundúna með WOW og þegar á áfangastað var komið tók hún eftir því að hand­fang kerr­unn­ar og fest­ing sem held­ur inn­kaupa­kerru und­ir kerr­unni höfðu brotnað á leiðinni. Hún komst hins vegar ekki í netsamband fyrr en tveimur dögum seinna og sendi þá tölvupóst.

Samkvæmt reglum WOW þarf að gera at­huga­semd­ir við skemmd­ir á far­angri áður en farið er út af flug­vell­in­um þar sem tekið er við far­angr­in­um. Sé eng­in at­huga­semd gerð við þjón­ustuaðila fé­lags­ins á vell­in­um, sam­svar­ar það því að far­ang­ur­inn hafi verið af­hent­ur í góðu ástandi.

Frétt mbl.is: Ósátt með WOW vegna tjóns á farangri

Mál af þessu tagi heyra undir Samgöngustofu og úrskurðar stofnunin meðal annars í ágreiningi er tengist réttindum flugfarþega. 

Í svari Þórólfs Árnasonar, forstjóra Samgöngustofu, við fyrirspurn mbl segir að ákvæði 104. greinar loftferðalaga gildi um ábyrgð flytjenda á farangri. Þar segir að flytjandi sé ábyrgur fyrir tjóni sem verður ef innritaður farangur glatast, skemmist eða eyðileggst ef tjónsatburðurinn á sér stað í loftfari, eða meðan innritaður farangur er í vörslum flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna.

Flytjandi er ábyrgur ef innritaður farangur skemmist í vörslum hans.
Flytjandi er ábyrgur ef innritaður farangur skemmist í vörslum hans. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Ábyrgð skýr samkvæmt ákvæðinu

Þórólfur segir ábyrgð flytjanda vera skýra samkvæmt lagaákvæðinu. Hins vegar geti sönnunarstaða í slíkum málum oft verið erfið. „Væntanlega gildir það um meint tjón á þessu sviði, sem og öllum öðrum, að best er að tilkynna tjónið sem fyrst og helst um leið og það er ljóst eða uppgötvast,“ segir Þórólfur.

„Því lengri tími sem líður, því erfiðara er að sanna með hvaða hætti tjón hefur orðið. Neytendavernd byggir yfirleitt á skilningi þjónustuveitanda á því að kvörtun sé borin fram með réttmætum hætti og sem fyrst,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK