Gróft brot á jafnræðisreglu

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar

Það felur í sér gróft brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að verðbréfa- og fjárfestingasjóðum skuli ekki nú þegar hafa verið veitt almenn heimild til fjárfestinga erlendis með sama hætti og í sömu hlutföllum og lífeyrissjóðir og vörsluaðilar séreignarlífeyrissparnaðar hafa fengið á undangengnum mánuðum. Þetta er fullyrt í bréfi sem fjármálafyrirtækið Gamma hefur sent Seðlabanka Íslands og ViðskiptaMogginn hefur undir höndum.

Í bréfinu áskilur fyrirtækið sér rétt til að grípa til aðgerða ef ekki verði bætt úr stöðu mála, og að þar komi meðal annars til greina að höfða mál gegn bankanum og leggja inn kvörtun til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA. Að mati fyrirtækisins standa engin rök til að meðhöndla ólík sparnaðarform almennings með mismunandi hætti. Er þess krafist að verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum verði umsvifalaust veitt almenn undanþága til fjárfestinga erlendis og að það verði gert í samræmi við heimild fyrrnefndra aðila.

Í bréfi Gamma til Seðlabankans er rakið að bankinn hafi 1. júlí síðastliðinn veitt lífeyrissjóðum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar heimild til frekari fjárfestinga erlendis og að umfang þeirra myndi nema að minnsta kosti 40 milljörðum króna. Bættist sú heimild við 40 milljarða heimild sem sömu aðilum hafði verið veitt í þessa veru til lok júnímánaðar. Einnig er bent á að erlendum kröfuhöfum hafi nú þegar verið veitt undanþága frá gjaldeyrishöftum á grundvelli sérstakra samninga í tengslum við nauðasamninga föllnu bankanna.

Að mati Gamma eiga þau sjónarmið, sem Seðlabankinn færði fram þegar tilkynnt var um auknar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna á erlendri grund, einnig við um þau fyrirtæki sem varðveiti og ávaxti sparnað í formi verðbréfa- og fjárfestingarsjóða. Þessi rök bankans eru í fyrsta lagi þau að gjaldeyrisinnstreymi og minni óvissa vegna greiðslujafnaðar þjóðarbúsins skapi svigrúm til fjárfestinga erlendis, í öðru lagi að staða gjaldeyrisforðans sé rúm, í þriðja lagi að þjóðhagslegur ávinningur felist í aukinni áhættudreifingu og vinni á uppsafnaðri fjárfestingarþörf erlendis, sem aftur dragi úr hættu á óstöðugleika í gengis- og peningamálum og í fjórða lagi það að til lengri tíma litið hafi hinar auknu heimildir hverfandi áhrif á gjaldeyrisstöðuna því þær muni á komandi mánuðum „draga úr þörf þeirra til gjaldeyriskaupa í framtíðinni,“ eins og það er orðað í yfirlýsingu Seðlabankans.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK