16.300 störf skapast eftir hrun

Í fyrra sköpuðust sex þúsund ný störf hér á landi.
Í fyrra sköpuðust sex þúsund ný störf hér á landi. mbl.is/Golli

Í fyrra voru í fyrsta skipti frá því að fjármálakreppan skall á fleiri við vinnu en árið 2008. 12.000 störf töpuðust á árunum 2008 til 2010 en 16.300 hafa hins vegar komið í staðinn. Er bróðurpartur nýrra starfa kominn til vegna ferðaþjónustunnar.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýjum markaðspunktum greiningardeildar Arion banka um stöðuna á vinnumarkaði.

Er þar meðal annars bent á að í fyrra hafi alls sex þúsund ný störf skapast. Til að setja það í samhengi hafi samtals um 204 þúsund manns verið á íslenskum vinnumarkaði í maí á þessu ári.

Greiningardeildin segir að störfum sem tengjast rekstri gististaða og veitingarekstri hafi fjölgað um 3.200 á tímabilinu 2010 til 2015, störfum er snúa að flutningum og geymslu hafi fjölgað um 2.300 og störfum á ferðaskrifstofum og í tengslum við aðra bókunarþjónustu fjölgað um 1.000.

Mesta fækkun starfa hefur átt sér stað innan fjármálakerfisins og landbúnaðar og fiskveiða.

Svipar til áranna fyrir hrun

Fram kemur í markaðspunktunum að nú sé svo komið að aðstæðum á vinnumarkaði svipi til þess sem var áður en fjármálakreppan skall á.

„Atvinnuleysi hefur komið hratt niður undanfarin misseri og stefnir hraðbyr að „góðærisgildi“ sínu, ef svo mætti að orði komast. Þannig hefur meðalatvinnuleysi síðustu tólf mánuði ekki verið lægra síðan í ársbyrjun 2009, en mælist nú 3,5% samkvæmt könnunum Hagstofunnar og 2,6% samkvæmt skráningum Vinnumálastofnunar. Þá hefur atvinnuþátttaka farið ört vaxandi og gælir nú við fyrri hágildi sín,“ segir greiningardeildin.

Meðalatvinnuleysi síðustu tólf mánuði hefur ekki verið lægra síðan í …
Meðalatvinnuleysi síðustu tólf mánuði hefur ekki verið lægra síðan í ársbyrjun 2009. mbl.is/Ernir

Efnahagsbati og fjölgun starfa

Þá hafa heildarvinnustundir aukist samfleytt síðustu fjórtán fjórðunga. Öndvert við það sem var þegar hagkerfið var að taka sín fyrstu skref í átt að bata og fyrirtæki juku framleiðslu með því að krefjast aukinnar framleiðni, hafi auknum efnahagsumsvifum verið mætt með fjölgun starfa fremur en lengingu vinnutíma síðastliðin ár.

„Ísland virðist því hafa forðast gildruna er sum hver viðskiptalönd okkur sátu föst í, þ.e. efnahagsbata án fjölgunar starfa,“ segir greiningardeildin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK