Verizon kaupir kjarnarekstur Yahoo

AFP

Talið er að bandaríski fjarskiptarisinn Verizon Communications tilkynni í dag um kaup á kjarnastarfsemi netfyrirtækisins Yahoo á fimm milljarða dala, sem jafngildir um 612 milljörðum íslenskra króna.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því á föstudag að fyrirtækin ættu í samningaviðræðum um viðskiptin.

Forsvarsmenn Yahoo sögðust í febrúarmánuði hafa í hyggju að gera grundvallarbreytingar á rekstri fyrirtækisins. 

Búist er við því að tilkynnt verði um kaupin fyrir opnun markaða vestanhafs í dag.

Verizon mun meðal annars eignast leitarvél og auglýsingastarfsemi Yahoo. Einnig fylgja fasteignir Yahoo með í kaupunum, en þó ekki sum hugverkaréttindi fyrirtækisins. Verða þau seld sér.

Þá eignast Verizon ekki eignarhluti Yahoo í Alibaba og Yahoo Japan sem eru metnir á um fjörutíu milljarða dala.

AFP

Forsvarsmenn Yahoo hafa átt í erfiðleikum með að bregðast við gjörbreyttu landslagi á netauglýsingamarkaðinum. Eru fjármálagreinendur sammála um að forstjóra Yahoo, Marissu Mayer, hafi ekki tekist það ætlunarverk sitt að blása nýju lífi í þennan fyrrverandi leitarvélarisa.

Tap á rekstrinum

Í síðustu viku greindi fyrirtækið frá því að það hefði tapað 440 milljónum dala á öðrum fjórðungi ársins.

Markaðsvirði fyrirtækisins var 125 milljarðar dala þegar það var sem hæst um síðustu aldamót. Eins og áður sagði er kaupverðið, sem Verizon greiðir, áætlað um fimm milljarðar dala.

Colin Gillis, greinandi hjá BGC, segist búast við því að stjórn Yahoo samþykki öll tilboð sem hljóða upp á fimm milljarða dala eða hærra.

Með kaupunum mun hlutur Verizon á netauglýsingamarkaði tvöfaldast og verður fyrirtækið það þriðja stærsta í netauglýsingum, á eftir Google og Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK