Uppgjör McDonald's vonbrigði

AFP

Sala bandarísku skyndibitakeðjunnar McDonald's var mun minni á öðrum fjórðungi ársins en búist hafði verið við. Forsvarsmenn félagsins segja að það glími við „krefjandi umhverfi á nokkrum lykilmörkuðum“.

Hlutabréf í McDonald's lækkuðu um 3,7% eftir að uppgjörið var birt í dag.

Sala félagsins á sölustöðum sínum í Bandaríkjunum jókst um 1,8% á milli ára, en greinendur höfðu búist við 3,2% söluvexti.

Tekjur af sölustöðum félagsins vestanhafs voru um þriðjungur af heildartekjum þess í fyrra.

„Það er enginn vafi um að markaðurinn í Bandaríkjunum var daufur á tímabilinu,“ segir Neil Saunders, framkvæmdastjóri greiningarfyrirtækisins Conlumino. Hann segir að Bandaríkjamenn hafi eytt minna í skyndibitafæði en búist var við.

Forsvarsmenn Wendys, eins helsta keppinautar McDonald's, vöruðu við því í maímánuði að salan myndi líklegast hægja á sér yfir sumarmánuðina.

Alls jókst sala McDonald's á heimsvísu um 3,1 prósentustig á öðrum ársfjórðungi. Fjármálagreinendur höfðu spáð að meðaltali 3,6 prósentustiga vexti.

Heildartekjur skyndibitakeðjunnar drógust saman um 3,5% og námu 6,27 milljörðum dala á tímabilinu, sem er svipað og greinendur höfðu gert ráð fyrir.

Þá dróst hagnaður keðjunnar saman um 9,1% og nam 1,09 milljörðum dala. Það var aðeins meiri hagnaður en þeir sérfræðingar sem Reuters ræddi við höfðu spáð.

Hlutabréf í félaginu hafa samtals hækkað um 7,8% í verði það sem af er árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK