Fjárhagsstuðningur verði réttlátari

Til stendur að endurskoða lög um almannatryggingar.
Til stendur að endurskoða lög um almannatryggingar. mbl.is/Eggert

Viðskiptaráð Íslands styður þær breytingar sem lagðar eru til í drögum að frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar, en varar við að skattar verði hækkaðir til þess að fjármagna þær.

Frumvarpsdrögin voru birt á vef velferðarráðuneytisins 24. júní síðastliðinn og fela í sér heildarendurskoðun laga um almannatryggingar. 

Meðal annars er áformað að fækka bótaflokkum úr þremur í einn og afnema frítekjumörk. Viðskiptaráð styður þessar breytingar í umsögn sinni um drögin, enda séu þær til þess fallnar að gera fjárhagsstuðning hins opinbera við eldri borgara réttlátari, einfaldari og gagnsærri en áður.

Viðskiptaráð styður jafnframt þá breytingu í frumvarpsdrögunum að lífeyristökualdur hækki úr 67 árum í 70 ár. Líkt og fram kemur í drögunum eru margvíslegar röksemdir fyrir þessari breytingu, þar á meðal lengri meðalævi, hærri lífaldur, bætt heilsa og jákvæð áhrif virkni á efri árum á bæði andlega og líkamlega heilsu.

Einnig eru lagðar til heimildir til að fresta lífeyristöku til 80 ára aldurs annars vegar og minnka starfshlutfall á efri árum hins vegar. Heimildir fyrir slíkum auknum sveigjanleika þegar kemur að starfslokum væru framfaraskref að mati Viðskiptaráðs. Einstaklingar séu ólíkir og því henti þeim misjafnlega vel að láta af störfum á tilteknum aldri. Margir sem komnir eru á lífeyristökualdur hafi enn vilja og getu til þess að starfa lengur á atvinnumarkaði og því sé til mikilla bóta að þeim sé heimilt að haga atvinnuþátttöku sinni eftir því sem þeim hentar best.

Styðja við aukna verðmætasköpun 

Viðskiptaráð segir að breytingarnar séu til þess fallnar að styðja við aukna verðmætasköpun. Verði frumvarpsdrögin að lögum hafi einstaklingar á síðari hluta æviskeiðs aukna hvata til að taka þátt á vinnumarkaði eftir því sem þeir sjálfir telja heppilegast. Breytingarnar hafi því jákvæð áhrif á lífskjör á Íslandi til lengri tíma litið.

Fjármögnun breytinganna geti á hinn bóginn haft neikvæð áhrif á lífskjör. Í kostnaðarmati með frumvarpsdrögunum kemur fram að áætlaður kostnaður vegna breytinganna nemi samtals 33 milljörðum króna fram til ársins 2027. Ekki er lögð til ákveðin leið til að fjármagna þessar breytingar en þó er lögð fram áætlun um að hækkun tryggingargjalds þyrfti að nema 0,45% til að þær skili ríkissjóði ekki tapi.

„Verði breytingarnar fjármagnaðar með aukinni skattlagningu á vinnuframlag einstaklinga mun það vinna gegn jákvæðum áhrifum þeirra með því að draga úr verðmætasköpun allra einstaklinga – ekki einungis þeirra sem komnir eru á efri ár.

Unnið hefur verið að því á síðastliðnum árum að lækka tryggingagjald og hefur það farið stiglækkandi frá árinu 2012. Enn er þó nokkuð í að gjaldið lækki niður í það sem það var fyrir efnahagshrunið. Í greinargerð með stjórnarfrumvarpi sem varð að lögum nr. 54/2016 kom fram að stjórnvöld muni beita sér fyrir frekari lækkun tryggingagjalds á komandi árum. Yrði gjaldið hækkað á ný væri farið þvert á þá stefnu stjórnvalda,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs.

Verði fjármagnaður með niðurskurði

Viðskiptaráð hvetur til þess að breytingarnar verði fjármagnaðar með niðurskurði opinberra útgjalda í stað hækkun tryggingagjalds. Þannig megi tryggja að jákvæð efnahagsleg áhrif breytinganna þurrkist ekki út vegna neikvæðra áhrifa af aukinni skattlagningu á vinnu einstaklinga.

Framlög hins opinbera til ýmiss konar samfélagsmótunar nema til að mynda um 100 milljörðum króna á ári. Dæmi um slíka starfsemi sé rekstur eða fjármögnun á sviðum póstþjónustu, sorphirðu, steypuframleiðslu, trúariðkunar, fjölmiðlunar og annarra atvinnugreina.

Ráðið hvetur stjórnvöld til að endurskoða útgjöld sín til þessara málefna með það að markmiði að fjármagna að fullu þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpsdrögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK