Stórauka ríkisútgjöld í Japan

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. AFP

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, tilkynnti í morgun að ríkisstjórn hans myndi brátt auka ríkisútgjöld um 28 trilljónir jena, sem jafngildir um 32.219 milljörðum íslenskra króna.

Markmiðið er að blása lífi í daufan efnahag landsins.

Fastlega var gert ráð fyrir að Abe myndi tilkynna um aðgerðirnar eftir að Bretar ákváðu að segja skilið við Evrópusambandið, en forsætisráðherrann hefur sagt að útganga þeirra muni hafa neikvæð áhrif á japanskt efnahagslíf.

Upphæðin sem um ræðir, 28 trilljónir jena, er þó töluvert hærri en gert var ráð fyrir.

Hlutabréf í Tókýó hækkuðu um leið og tilkynnt var um áformin. Margir hagfræðingar hafa þó viðrað efasemdir sínar um hvort innspýtingin muni duga ein og sér til þess að koma japanska hagkerfinu aftur á réttan kjöl.

Japanskir fjölmiðlar hafa greint frá því að hluti fjármagnsins verði nýttur til innviðafjárfestinga í landinu.

Japanir hafa glímt við lága verðbólgu, og stundum verðhjöðnun, og lítinn kaupmáttarvöxt undanfarin ár. Markmiðið með aðgerðunum er að auka einkaneyslu á meðal japanskra neytenda og örva þannig hagkerfið.

Japanskir ráðamenn hafa reynt ýmislegt til þess að blása lífi í efnahagslífið á undanförnum árum, þar á meðal að lækka stýrivexti seðlabankans undir núll prósent, en aðgerðirnar hafa ekki skilað tilætluðum árangri.

Líklegt þykir þó að peningastefnunefnd seðlabankans ákveði að lækka vextina enn frekar þegar hún kemur saman í þessari viku. Vextirnir eru nú þegar neikvæðir, eins og áður sagði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK