Vara við óvissu vegna hryðjuverka

Jean-Marc Janaillac, forstjóri Air France-KLM.
Jean-Marc Janaillac, forstjóri Air France-KLM. AFP

Franska flugfélagið Air France-KLM hefur varað við því að nýlegar hryðjuverkaárásir í Evrópu, þar á meðal í Frakklandi, geti haft slæm áhrif á afkomu félagsins. Til að mynda séu áhyggjur uppi um „Frakkland sem áfangastað“.

Forsvarsmenn félagsins greindu frá því í morgun að tekjur þess hefðu dregist saman um 5% á öðrum fjórðungi ársins og numið 6,22 milljörðum evra.

Í kauphallartilkynningu vöruðu forsvarsmennirnir við áhrifunum af óvissuástandinu sem nú ríkir í ferðaþjónustu um alla álfuna.

Fleiri evrópsk flugfélög hafa varað við þessari óvissu og bent á að hún gæti haft neikvæð áhrif á rekstur.

Hagnaður franska flugfélagsins af reglulegri starfsemi jókst þó um 138% á ársfjórðungnum og nam 317 milljónum evra. Ástæðan er fyrst og fremst lækkandi eldsneytiskostnaður.

Air France-KLM birti uppgjör sitt í morgun, aðeins degi eftir að tveir vopnaðir menn myrtu prest í Frakklandi. Árásin vakti mikinn óhug.

Gerald Khoo, greinandi hjá Liberum, segir að uppgjör flugfélagsins hafi ekki verið eins slæmt og óttast var. Salan hafi dregist saman, en að vísu hafi lægri eldsneytiskostnaður vegið þar á móti.

Hlutabréf í flugfélaginu hækkuðu um 3% í verði í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK