Eiginfjárhlutfallið færi úr 13,2% í 9,4%

Höfuðstöðvar Monte dei Paschi di Siena. Bankinn var stofnaður 1472.
Höfuðstöðvar Monte dei Paschi di Siena. Bankinn var stofnaður 1472. AFP

Ítalski bankinn Banca Monte dei Paschi di Siena kom langverst evrópskra banka út úr álagsprófi Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar. Niðurstöðurnar voru kynntar í dag.

Stofnunin hannaði álagspróf sem gerir ráð fyrir efnahagsskelli árið 2018 og samkvæmt niðurstöðunum myndi eiginfjárhlutfall BMPS hrapa um 14,23% ef til hans kæmi. Þetta myndi þýða að hlutfallið yrði neikvætt um 2,23%.

BPMS, sem er elsta bankastofnun heims, var eini bankinn af 51 sem endaði í rauðu.

Andrea Enria, stjórnarformaður bankaeftirlitsstofnunarinnar, sagði að álagsprófið hefði endurspeglað að styrking eiginfjárstöðu bankanna skilaði sér í aukinni seiglu evrópska bankageirans ef til áfalls kæmi.

Hann ítrekaði hins vegar að niðurstöðurnar væru ekki marks um að frekari bóta væri ekki þörf.

Sá banki sem kom næstverst út úr álagsprófinu var Allied Irish Bank, hvers eiginfjárhlutfall myndi lækka um 8,47% ef til áfalls af þeim toga er lá til grundvallar kæmi.

Eiginfjárhlutfall Deutsche Bank myndi lækka um 5,4% og Royal Bank of Scotland 7,46%.

Samkvæmt niðurstöðum álagsprófsins myndi bankageirinn í heild þó ekki fara niður fyrir lágmarkskröfur um eiginfjárhlutfall.

Viðmiðin í prófinu voru 1,2% samdráttur árið 2016, 1,3% árið 2017, og 0,7% vöxtur árið 2018.

Bankarnir sem voru prófaðir telja 70% af geiranum í heild. Eiginfjárhlutfall þeirra var 13,2% við árslok 2015 en yrði 9,4% við árslok 2018, ef framangreind viðmið gengju eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK