Uber selur starfsemi sína í Kína

AFP

Leigubílaþjónustan Uber hefur samþykkt að selja starfsemi sína í Kína til keppinautarins Didi Chuxing.

Fyrirtækin tvö hafa háð mikla baráttu um hylli neytenda en Didi Chuxing er ráðandi afl á kínverska markaðinum með 87% markaðshlutdeild. Hefur Uber gengið illa að hasla sér völl í landinu.

Uber hóf starfsemi í Kína árið 2014, en fyrirtækinu hefur ekki enn tekist að skila hagnaði af rekstri sínum þar.

Cheng Wei, stofnandi og forstjóri Did Chuxing, segir að félögin tvö hafi lært margt af hvoru öðru á undanförnum tveimur árum.

Hann mun fá sæti í stjórn Uber en Travis Kalanick, forstjóri Uber, mun setjast í stjórn Didi Chuxing. Hluthafar Uber China, sem rennur saman við Didi Chuxing, munu eiga 20% hlut í hinu sameinaða félagi.

Talið er að markaðsvirði Did Chuxing verði um 35 milljarðar dala eftir kaupin. Meðal bakhjarla félagsins eru netrisarnir Tencent og Alibaba. Félagið hefur jafnframt fjárfest í bandaríska félaginu Lyft, einum helsta keppinauti Uber.

Eins og áður sagði hefur Uber gengið illa að hasla sér völl í Kína. Forsvarsmenn félagsins viðurkenndu í febrúarmánuði að félagið tapaði meira en einum milljarða dala á ári í landinu.

Duncan Clark, greinandi hjá BDA, segir að Kínaævintýrið hafi verið Uber of dýrt. Margir telji að tap félagsins í landinu hafi jafnframt staðið í vegi fyrir hlutafjárútboði þess, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK