Fjárfestar bítast um Jökulsárlón

Jökulsárlón.
Jökulsárlón. mbl.is/Ómar

Mikill áhugi er á jörðinni Felli í Austur-Skaftafellssýslu, sem nær að hluta yfir Jökulsárlón, að sögn Huldu Jónasdóttur, eins landeigenda og gerðarbeiðanda í málinu. Fjárfestingasjóðir og aðrir fjárfestar hafa sýnt jörðinni áhuga.

Jök­uls­ár­lón er einn af vin­sæl­ustu ferðamanna­stöðum lands­ins.

Sýslumaður­inn á Suður­landi hefur jörðina í nauðgungarsölumeðferð til slita á sameign. Fól hann Ólafi Björnssyni, lögmanni hjá Lögmönnum Suðurlands, að leita tilboða í jörðina. Til stóð að bjóða upp eignina en sýslumaður úrskurðaði 10. mars að jörðin yrði sett í almennt söluferli.

„Við finnum fyrir miklum áhuga fjárfesta á jörðinni Felli og ánægjulegt að sjá hve margir vilja koma að þeirri uppbyggingu sem þar mun hefjast þegar jörðin hefur verið seld.  Fjárfestingasjóðir og fjárfestar hafa haft samband við okkur vegna þeirra möguleika sem jörðin býður upp á,“ segir Hulda.

Verður að þóknast gerðarbeiðendum

Í tilkynningu segir að tilboð í jörðina verði að þóknast gerðarbeiðendum til þess að sala nái fram að ganga.   

Áður hefur komið fram að líklegt söluverð jarðarinnar sé um tveir milljarðar króna, en hún er alls rúmlega 10.500 hektarar að stærð.

Deilur milli landeigenda Fells, sem eru fjörutíu talsins, um ráðstöfun jarðarinnar hafa staðið yfir í um tvo áratugi, en þær eiga rætur að rekja til óskipts dánarbús.

Sýslumaður féllst á beiðni fjórtán landeigendanna um nauðungarsölu til slita á sameigninni í apríl síðastliðnum eftir að dómkvaddur matsmaður mat jörðina óskiptanlega.

Ekki stendur til að nýta forkaupsrétt

Íslenska ríkið á forkaupsrétt að Felli, sem staðsett er austan megin Jökulsárbrúar. Landareignin Fell, vestan megin brúarinnar, er þjóðlenda og því í eigu ríkisins. Verði tilboðið samþykkt hefur ríkið tvær vikur til að nýta forkaupsrétt sinn.

Málið var tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi 15. apríl en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í maí að ekki stæði til að ríkissjóður keypti jörðina, í það minnsta væri ekki gert ráð fyrir því í fjármálastefnu og fjármálaáætlun fyrir hið opinbera til næstu fimm ára, enda væri um sértækt mál að ræða. Þó væri vel fylgst með máli Jökulsárlóns.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK