Spá frekari styrkingu krónunnar

Gengislækkun pundsins gagnvart krónunni hefur meðal annars valdið því að …
Gengislækkun pundsins gagnvart krónunni hefur meðal annars valdið því að dýrara er fyrir Breta að dvelja hér á landi. mbl.is/Styrmir Kári

Gengi breska pundsins hefur lækkað um 25,20% gagnvart íslensku krónunni á undanförnum tólf mánuðum. Hefur það nú ekki verið ódýrara, í krónum talið, frá því í mars árið 2009. Er gert ráð fyrir áframhaldandi veikingu pundsins næstu mánuði.

Eitt pundar kostar nú rétt rúmlega 155 krónur en á undanförnum sjö árum hefur það haldist á bilinu 175 til 210 krónur. Fór það síðast niður fyrir 155 krónur í marsmánuði árið 2009.

Gengislækkun breska pundsins hefur verið sérstaklega skörp í sumar, fyrst í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um veru Bretlands í Evrópusambandinu, og síðan í kjölfar þess að úrslitin lágu fyrir og ljóst var að Bretar hefðu kosið að segja skilið við sambandið.

Í byrjun sumars stóð gengi pundsins í um 180 krónum og hefur það því lækkað um 16% í sumar. Lækkunin nemur 19% það sem af er ári.

Bæði góðar og slæmar fregnir

Veik­ing punds­ins þýðir, eins og gef­ur að skilja, að ódýr­ara verður að flytja inn vör­ur og þjón­ustu frá Bretlandi og eins verður ódýr­ara fyr­ir Íslend­inga að ferðast og dvelja í Bretlandi. En frétt­irn­ar eru þó ekki al­farið góðar, því að sama skapi hef­ur veik­ing punds­ins þau áhrif að lægra verð en ella fæst fyr­ir ís­lensk­ar vör­ur og þjón­ustu sem flutt er út til Bretlands. Þá verður jafn­framt dýr­ara fyr­ir Breta að dvelja hér á landi.

Línuritið sýnir gengisþróun krónunnar gagnvart breska pundinu það sem af …
Línuritið sýnir gengisþróun krónunnar gagnvart breska pundinu það sem af er ári. Skjáskot af vef Íslandsbanka

Þess má geta að gengi krónunnar hefur ekki aðeins styrkst gagnvart pundinu á umliðnum mánuðum, heldur jafnframt gagnvart evrunnni og Bandaríkjadalnum. Nemur styrkingin um 10% á síðustu tólf mánuðum.

Skellur fyrir breskt efnahagslíf

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningar Íslandsbanka, segir ekki alveg fyrirséð hvaða afleiðingar gengislækkun breska pundsins muni hafa í för með sér á bæði breskt efnahagslíf sem og þau hagkerfi sem tengjast því, eins og það íslenska. Ísland sé í sterku viðskiptasambandi við Breta.

„Ákvörðun Breta um að segja skilið við Evrópusambandið hefur verið ákveðinn örlagavaldur fyrir gengisþróun breska pundsins undanfarið, enda ákvörðunin skellur fyrir breskt efnahagslíf,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hefur áhrif á breska ferðamenn

Hann bendir á að það sem hafi breyst hér á landi, samhliða hinum öra vexti ferðaþjónustunnar, sé að hagkerfið taki nú í meira mæli mið af efnahags- og gengisþróun í þeim ríkjum sem hvað flestir ferðamenn koma frá. „Þetta er kannski fyrsta róttæka dæmið sem við sjáum eftir að ferðaþjónustan varð svona umfangsmikil hér á landi um hvaða áhrif gengisbreytingar hafa á hagkerfið.

Breska pundið hefur hríðfallið í verði undanfarið.
Breska pundið hefur hríðfallið í verði undanfarið. AFP

Við eigum eftir að sjá hverjar afleiðingarnar verða, en það er öruggt að lækkunin mun hafa áhrif á bæði útgjöld breskra ferðamanna hér á landi sem og fjölda breskra ferðamanna sem hingað koma,“ segir Ingólfur.

Bretar eru stærsti og einn hraðast vaxandi hópur ferðamanna á landinu og segir Ingólfur nokkuð ljóst að nýleg gengisþróun pundsins muni hafa áhrif á bæði það hversu margir breskir ferðamenn koma hingað og hversu mikil útgjöld þeirra eru hér á landi. „Það má segja að Bretar hafi verið einn af stóru drifkröftunum í vextinum í ferðaþjónustunni, þannig að þetta er áhyggjuefni.“

Dregur úr útgjöldum Breta

Hann bendir þó á að aðrar myntir hafi styrkst gagnvart breska pundinu, þar á meðal Bandaríkjadalurinn. Það gæti valdið því að fleiri, til dæmis Bandaríkjamenn, ferðist hingað, til meginlands Evrópu og til Bretlands. Það gæti virkað sem ákveðið mótvægi.

„Þannig að það er ekki fyrirséð hver áhrifin nákvæmlega verða, en þó er klárt að gengislækkunin mun draga úr útgjöldum breskra ferðamanna hér á landi og í leiðinni tekjum okkar af þeim.“

Ákvörðun Breta um að segja skilið við Evrópusambandið var ákveðinn …
Ákvörðun Breta um að segja skilið við Evrópusambandið var ákveðinn örlagavaldur fyrir gengisþróun pundsins. AFP

Á von á hægfara styrkingu

Ingólfur segir að í þjóðhagsspá greiningar Íslandsbanka frá því í byrjun sumars hafi verið gert ráð fyrir því að fram að afléttingu hafta sé líklegt að gengi krónunnar þróist með viðlíka hætti og það hefur gert undanfarið: hægfara styrking og lítið flökt.

„Okkur þótti það nokkuð sýnt að innan gjaldeyrishaftanna yrði leiðin í þessa átt, til styrkingar, vegna þess að við erum með mikið hreint innstreymi fjármagns, ekki síst yfir sumarmánuðina vegna ferðaþjónustunnar. Umtalsverður afgangur á utanríkisviðskiptum hefur skapað þetta gjaldeyrisinnflæði og það tengist ferðaþjónustunni og vexti hennar sérstaklega.

Til viðbótar hefur erlend skuldastaða þjóðarbúsins batnað allverulega, og er orðin tiltölulega góð í sögulegu samhengi, og þá eru nettó vaxtagreiðslur til útlanda mun lægri en áður. Það allt saman, ásamt auðvitað uppgangi í efnahagslífinu, hjálpar við að styrkja krónuna.“

Búast má við því að raungengi krónunnar hækki á næstunni …
Búast má við því að raungengi krónunnar hækki á næstunni samhliða því að framleiðsluspenna aukist í hagkerfinu. mbl.is/Golli

Í þjóðhagsspánni kom einnig fram að greining Íslandsbanka telur líkur á því að raungengi krónunnar hækki á næstunni samhliða því að framleiðsluspenna aukist í hagkerfinu. Er líklegt að þessi hækkun raungengisins komi að minnsta kosti að hluta til með hærra nafngengi krónunnar.

Óvissan meiri og flöktið sömuleiðis

Gengisþróunin innan gjaldeyrishaftanna undanfarin ár hefur verið nokkuð fyrirsjáanleg og hefur henni að miklu leyti verið stýrt af Seðlabankanum. Bankinn hefur keypt mikið af gjaldeyri til þess að vinna á móti styrkingu krónunnar og safna í sarpinn í óskuldsettan forða til þess að búa sig undir losun haftanna.

Ingólfur segir að óvissan um gengisþróunina verði nú öllu meiri þegar næstu skref verða stigin í afnámsferlinu. Líklegt sé að flökt krónunnar aukist.

„Við erum samt ekki svartsýnir á þróun krónunnar þegar kemur fram yfir losun gjaldeyrishafta. Ég held að aðstæður í efnahagslífinu ásamt stöðu gjaldeyrisforðans og hugsanlegu útflæði muni ekki kalla á einhverja umtalsverða gengislækkun. Það kæmi á óvart. Ég held að það sé fullur vilji Seðlabankans og stjórnvalda að tryggja að svo verði ekki. Þannig að við reiknum með að krónan styrkist fram á næsta ár.“

Seðlabankinn hefur verið duglegur við að kaupa gjaldeyri á undanförnum …
Seðlabankinn hefur verið duglegur við að kaupa gjaldeyri á undanförnum árum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK