Þrjátíu skattamál til rannsóknar

Gögnin sem skattrannsóknarstjóri keypti í maí í fyrra varða alls …
Gögnin sem skattrannsóknarstjóri keypti í maí í fyrra varða alls 585 félög í svokölluðum skattaskjólum. mbl.is/Golli

Þrjátíu mál sæta nú rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra á grundvelli gagna sem hann keypti í maí árið 2015 og varða fjármuni Íslendinga í erlendum skattaskjólum. Í málunum liggur rökstuddur grunur fyrir um undanskot tekna.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, sem birt var á vef Alþingis í dag.

Gögnin sem skattrannsóknarstjóri keypti í maí í fyrra varða alls 585 félög í svokölluðum skattaskjólum. Í gögnunum eru upplýsingar sem tengja um 400 Íslendinga við nefnd félög. Í flestum tilvikum er um að ræða skjöl um stofnun félaga og skjöl í formi umboða sem skráðir stjórnarmenn félaganna hafa veitt nafngreindum einstaklingum til stjórnunar og skuldbindinga þeirra.

Jafnframt eru þar upplýsingar um eigendur hlutafjár í félögunum.

Í gögnunum er hins vegar ekki að finna bankayfirlit eða aðrar fjárhagsupplýsingar. Þá hefur komið í ljós við forskoðun gagnanna að á fjórða tug umræddra einstaklinga hefur áður sætt rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra vegna ætlaðra skattalagabrota, nokkrir reyndust búsettir erlendis og einhverjir látnir, að því er fram kemur í svarinu.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. mbl.is/Rósa Braga

Í kjölfar afhendingar gagnanna og forskoðunar þeirra hófst frekari greining þeirra og úrvinnsla hjá skattrannsóknarstjóra á grundvelli skattframtala viðkomandi einstaklinga. Einnig aflaði embættið fjárhagsupplýsinga frá innlendum fjármálafyrirtækjum um greiðslur erlendis frá yfir tiltekið tímabil. Þá voru gögnin borin saman við ýmsar aðrar upplýsingar og gagnagrunna sem skattrannsóknarstjóri hefur aðgang að.

Of snemmt að segja til um fjárhæðir

Á grundvelli fyrrgreindrar greiningarvinnu og úrvinnslu var niðurstaða skattrannsóknarstjóra sú að þrjátíu mál mundu sæta frekari meðferð hjá embættinu þar sem rökstuddur grunur lægi fyrir um undanskot tekna. Önnur mál voru framsend ríkisskattstjóra í október síðastliðnum ásamt samantekt, með vísan til þess að greining skattrannsóknarstjóra á umræddum gögnum benti til þess að skattskil aðila gætu verið athugunarverð, án þess þó að sýnt þætti að um refsiverð undanskot væri að ræða.

„Á þessu stigi er of snemmt að segja til um fjárhæðir skattálagningar sem til kunna að koma í kjölfar rannsókna embættisins á framangreindum 30 málum, enda eru þessar rannsóknir enn í gangi og ófyrirséð hverju þær kunna að skila. Svipuðu máli gegnir um úrvinnslu ríkisskattstjóra í þeim málum sem þangað voru send. Ekki er því unnt á þessu stigi að fullyrða nokkuð um hverju gögnin muni skila í tekjum til ríkis og sveitarfélaga með endurálagningu opinberra gjalda,“ segir jafnframt í svarinu.

Kaupverðið nam 200 þúsund evrum

Þar kemur einnig fram að kaupverð gagnanna hafi numið 200 þúsund evrum. Að viðbættum virðisaukaskatti og öðrum útlögðum kostnaði nam heildarkostnaðurinn 38.294.332 króna.

Í svarinu segir að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur embættið unnið að frekari greiningu og úrvinnslu þeirra gagna sem því bárust frá skattrannsóknarstjóra. Athugun RSK hefur leitt í ljós að skattskil 178 einstaklinga sem koma fram í gögnunum hafa á þessu stigi gefið tilefni til þess að stofnuð hafa verið mál á þessa einstaklinga hjá embættinu.

Þá liggur fyrir að 57 einstaklingar sæta ekki frekari skoðun þar sem þeir eru ýmist látnir eða fluttir úr landi. Ennfremur eru 19 lögaðilar í gögnunum sem þarf að skoða betur auk 83 einstaklinga sem enn þá eru til athugunar. Óljóst er á þessari stundu hversu mörgum málum kann að verða vísað aftur til skattrannsóknarstjóra að lokinni athugun RSK.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK