Reistu stærsta sólarorkuver Rotterdam

Sólarorkuverið sem sett var upp á þaki frigoCare.
Sólarorkuverið sem sett var upp á þaki frigoCare.

Samskip hafa látið setja upp sólarorkuver hjá kælifyrirtækinu frigoCare, dótturfyrirtæki sínu á hafnarsvæðinu í Rotterdam. Sólarorkuverið er það stærsta sem reist hefur verið þar í borg og var verkefnið unnið í samvinnu við hollenska orkufyrirtækið Zon Exploitatie og hafnarstjórn Rotterdam. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samskip en alls nam kostnaður verkefnisins um einni milljón evra.

Verkefnið er einn þáttur í umhverfis- og sjálfbærniáætlun Samskipa og í samræmi við yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum sem Samskip undirrituðu í nóvember á síðasta ári.

3100 sólarsellur

Sólarorkuverið var sett upp á þaki kæligeymslu frigoCare, sem getur hýst allt að 14 þúsund vörubretti. Alls eru sólarsellurnar 3100 talsins og þekja 7500 fermetra. Raforkuframleiðsla þeirra er um 750 þúsund kílówattstundir (kWst) á ári, eða sem nemur raforkuþörf um 250 smærri heimila. „Hér er um mikilvægan áfanga að ræða í loftslagsmálum þar sem verkefnið hefur í för með sér umtalsverðan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á hafnarsvæðinu í Rotterdam, stærstu og annasömustu höfn Evrópu,“ segir í tilkynningunni. 

Í Rotterdam eru um þessar mundir framleiddar um þrjár milljónir kWst af raforku á ári með sólarorku. Með þeirri viðbót sem Samskip standa fyrir hjá dótturfyrirtæki sínu eykst raforkuframleiðsla með sólarorku í Rotterdam um heil 25%.

Sólarorkuverið er í rekstri Zon en Samskip leggja til húseign undir orkuverið. Á móti fær dótturfyrirtækið aðgang að ódýrara og umhverfisvænna rafmagni. Alls nemur raforkuþörf frigoCare um 2,7 milljón kílóvattstunda (2,7 GWst) á ári og mun sólarorkuverið því geta fullnægt um 30% af árlegri heildarraforkuþörf kælifyrirtækisins. Sú orka sem frigoCare nýtir ekki frá sólarorkuverinu fer inn á raforkunet Rotterdam borgar.

 Góð fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki

Í undirbúningi verkefnisins þurfti frigoCare að fara í ýmis viðhaldsverkefni, m.a. endurnýjun á þaki kæligeymslunnar til að búa sem best að sólarorkuverinu sem í kjölfarið var sett þar upp. Framkvæmdastjóri frigoCare, Jan Bouman, segir að ákvörðunin um viðhaldsverkefnið hafi ekki síst verið tekin með hliðsjón af umhverfis- og sjálfbærniáætlun móðurfyrirtækisins með það fyrir augum að auka hlutfall grænnar raforku í starfseminni og lágmarka umhverfisáhrif.

„Samstarfið við Zon er okkur mikilvægt. Það gerir okkur kleift að vinna í samræmi við markmið okkar í loftslagsmálum því sólarorkuverið mun draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi okkar um 250 tonn á ári. Verkefnið er einnig góð fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki sem hafa markað sér umhverfisstefnu, ekki síst geymslu- og flutningafyrirtæki. Við vonum að fleiri fyrirtæki feti í fótspor okkar og ráðist í sambærilegt verkefni og þetta,“ er haft eftir Bouman.

90 milljónir fóru í endurbætur á húsnæðinu

Alls nam kostnaður vegna uppsetningar sólarorkuversins um einni milljón evra, eða sem nemur tæpum 133 milljónum króna. Þar af voru um um 90 milljónir króna sem fóru í endurbætur á húsnæðinu. Gert er ráð fyrir að fjárfestingin skili sér til baka á næstu tíu árum. Verkefninu lauk í lok júlí en sólarorkuverið verður vígt formlega 2. september næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK