Líkur á áframhaldandi lækkunum

IKEA ætlar að lækka verð um 3,2%.
IKEA ætlar að lækka verð um 3,2%. mbl.is/Árni Sæberg

Innfluttar vörur hafa lækkað um 3,1% í verði síðustu tólf mánuði og að mati sérfræðings hjá greiningardeild Arion banka er útlit fyrir áframhaldandi lækkanir næstu mánuði en í dag tilkynnti IKEA til að mynda að verslunin ætli að lækka verð um 3,2%. Í samtali við Morgunblaðið í dag sagði Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að það væru aðstæður í hagkerfinu sem geri þetta kleift. Sterkara gengi krónu, lægra olíuverð og lægri flutningskostnaður hefur áhrif ásamt auknum ferðmannastraumi til landsins.

Fyrri frétt mbl.is: Þriðja verðlækkunin á þremur árum

Að mati Hrafns Steinarssonar, sérfræðings hjá greiningardeild Arion banka, er útlit fyrir áframhald á lækkunum á innfluttum vörum næstu mánuði. Bendir hann á að nýir bílar hafi verið að lækka um 3 til 6% í verði sem tengist styrkingu krónunnar. 

„Almennt hafa stjórnendur ýmissa fyrirtækja líka verið að tjá sig um að styrking krónunnar hafi gert þeim auðveldara fyrir að ráða við launahækkanir svo þær fari ekki út í verðlag,“ segir Hrafn í samtali við mbl.is.

Veitur lækka gjaldskrá um áramótin

Hrafn segir að ef horft er á verðlagsþróun í heild séu vísbendingar um frekari lækkanir næstu mánuði. Nefnir hann í því samhengi fyrirhugaðar lækkanir á gjaldskrá Veitna, sem sjá um veiturekstur Orkuveitu Reykjavíkur sem greint var frá í tilkynningu frá OR í gær. Þar kom fram að Veitur sæju fram á að lækka gjaldskrár fyrir rafmagnsdreifingu og kalt vatn.

Þá stóð til í stefnu ríkisstjórnarinnar að afnema tolla á aðrar vörur 1. janúar 2017. Gangi það eftir ættu áhrifin að vera þau að vísitala neysluverðs lækki um 0,5%.

Hrafn segir að ef horft er á verðlagsþróun í heild …
Hrafn segir að ef horft er á verðlagsþróun í heild séu vísbendingar um frekari lækkanir næstu mánuði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hefur allt áhrif á hinn almenna neytanda

Spurður um aðrar lækkanir segir Hrafn að mæling Hagstofunnar á verði á símaþjónustu bendi til að verðið sé að lækka, sérstaklega á farsímaþjónustu og gagnamagni. „Verðið á farsímaþjónustu er að húrra niður og það virðist ekkert lát vera á því. Það hefur komið okkur á óvart hversu mikið hún er að lækka og hefur verið að gerast í næstum því hverjum mánuði upp á síðkastið,“ segir Hrafn.

„Þetta er allt eitthvað sem hefur áhrif á hinn almenna neytanda og þetta er ástæðan fyrir því að við teljum verðbólguhorfur til næstu tólf mánaða hafa batnað verulega. Ég held að það séu flestir sammála um það að verðbólgan verði undir verðbólgumarkmiði vel inn á næsta ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK