Hagnaðist um 291 milljón króna

Umsvif félagsins tengd sérhæfðum fjárfestingum voru sem fyrr umtalsverð, en …
Umsvif félagsins tengd sérhæfðum fjárfestingum voru sem fyrr umtalsverð, en á tímabilinu var lokið við fjármögnun tveggja samlagshlutafélaga.

Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 291 milljón króna á fyrri hluta ársins 2016, en árshlutareikningur félagsins var birtur í dag. Í fréttatilkynningu frá Landsbréfum kemur fram að hreinar rekstrartekjur námu 828 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2016, en námu 763 milljónum króna á sama tímabili á árinu 2015. Þá hefur stjórn félagsins fallist á beiðni Sigurbjörns Jóns Gunnarssonar, formanns stjórnar Landsbréfa, um tímabundið leyfi frá störfum frá 1. september.

Hagnaður af rekstri Landsbréfa nam 291 milljón króna á fyrri hluta ársins, samanborið við 285 milljóna króna hagnað á sama tíma á síðasta ári. Eigið fé Landsbréfa í lok tímabilsins nam 2.738 milljónum króna og eiginfjárhlutfall, reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 99,46% en þetta hlutfall má ekki vera undir 8%. Í lok júní áttu um 13 þúsund einstaklingar og lögaðilar fjármuni í sjóðum í stýringu Landsbréfa og voru eignir í stýringu þá um 152 milljarðar króna samanborið við 129 milljarða í upphafi árs.

Stýrðu skuldabréfasjóðum upp á 70,9 milljarða

Umsvif félagsins tengd sérhæfðum fjárfestingum voru sem fyrr umtalsverð, en á tímabilinu var lokið við fjármögnun tveggja samlagshlutafélaga. Annars vegar er það Horn III slhf., sem er 12 milljarðar króna að stærð og starfar á sviði framtaksfjárfestinga, og hins vegar Landsbréf – Veðskuldabréfasjóður slhf. sem er 8,7 milljarðar króna að stærð og mun fjárfesta í skuldabréfum með fasteignaveði. Félagið rekur einnig aðra framtakssjóði á samlagshlutafélagaformi. Þetta eru Horn II slhf., sem fjárfestir í öllum geirum íslensks atvinnulífs, Landsbréf Icelandic Tourism Fund I slhf., sem sérhæfir sig í fjárfestingum í afþreyingartengdri ferðaþjónustu, og loks Brunnur vaxtarsjóður slhf. sem fjárfestir í nýsköpun.

Landsbréf hf. reka fjölda skuldabréfasjóða og var ávöxtun þeirra almennt ágæt á tímabilinu miðað við markaðsaðstæður. Heildarstærð skuldabréfasjóða í stýringu hjá Landsbréfum var 70,9 milljarðar í lok júní.

Ávöxtun hlutabréfasjóða á fyrri árshelmingi 2016 endurspeglaði erfiðar markaðsaðstæður á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum. Hlutabréfasjóðir í rekstri Landsbréfa voru í lok júní 2016 um 28,5 milljarðar króna að stærð.

Sigurbjörn í tímabundið leyfi

„Rekstur Landsbréfa hefur gengið mjög vel það sem af er ári og hafa sjóðir félagsins almennt skilað góðum árangri miðað við markaðsaðstæður. Sjóðaframboð Landsbréfa er fjölbreytt og er þar að finna sjóði sem henta flestum fjárfestum. Útlitið í efnahagsmálum á Íslandi er gott, en óvissa á erlendum mörkuðum hefur áhrif hér á landi.  Allar forsendur eru þó til að búast við góðri ávöxtun á komandi misserum. Landsbréf munu halda áfram að leggja metnað sinn í að stýra þeim fjármunum sem félaginu er treyst fyrir á öruggan og markvissan hátt í þágu sjóðfélaga,“ er haft eftir Helga Þór Arasyni, framkvæmdastjóra Landsbréfa í tilkynningu.

Eins og fyrr segir fer formaður stjórnar Landsbréfa, Sigurbjörn Jón Gunnarsson, í tímabundið leyfi frá störfum 1. september. Í tilkynningu frá Landsbréfum kemur fram að Sigurbjörn sé framkvæmdastjóri Lyfju hf. en það fyrirtæki er nú að fara í opið söluferli. „Þar sem ekki er útilokað að sjóðir á vegum Landsbréfa hf. muni taka þátt í söluferlinu óskaði Sigurbjörn eftir því við stjórn Landsbréfa hf. að hann fengi leyfi frá störfum til 31. desember 2016 eða á meðan á söluferlinu stendur til að það verði hafið yfir allan vafa þó svo að fjárfestingarákvarðanir sjóða í rekstri Landsbréfa komi að öllu jöfnu ekki inn á borð stjórnar,“ segir í tilkynningu.

Heiður Agnes Björnsdóttir varastjórnarmaður mun taka sæti í aðalstjórn félagsins meðan á leyfi Sigurbjörns stendur og þá hefur stjórn félagsins ákveðið að Kristinn Ingi Lárusson gegni formennsku í stjórninni í fjarveru Sigurbjörns. Gert er ráð fyrir að Sigurbjörn komi aftur til starfa strax á nýju ári eða fyrr þá er söluferli Lyfju er lokið eða fyrir liggur að sjóðir Landsbréfa hf. séu ekki þátttakendur í söluferlinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK