Ísland fær 85 stig

Ferðamenn við Dynjanda í Arnarfirði.
Ferðamenn við Dynjanda í Arnarfirði. mbl.is/Rax

Ferðamenn sem sækja Ísland heim eru almennt ánægðir með dvöl sína, samkvæmt niðurstöðum Ferðamannapúlsins fyrir mánuðina júní og júlí. Meðaleinkunnin sem þeir gefa er um 85 á skalanum 0-100 sem er svipuð einkunn og hefur mælst framan af ári.

Þó er nokkur munur á útkomu eftir þjóðerni og hefur lengd dvalar einnig áhrif á mat fólks á veru sinni á Íslandi. Ferðamenn sem dvelja 1-2 nætur gefa lægstu einkunnir í Ferðamannapúlsinum og er ánægja þeirra sem dvelja styst marktækt lægri en þeirra sem dvelja lengur.

Ferðamenn við Sólheimajökul.
Ferðamenn við Sólheimajökul. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meðaleinkunn þeirra sem dvelja í 1-2 nætur er 81 miðað við 87 hjá þeim sem dvelja 5–14 nætur. Samkvæmt púlsinum voru Rússar ánægðastir ferðamanna en þeir gáfu  90,8 í meðaleinkunn fyrir júní og júlí, Ungverjar voru næstánægðastir með  90 í meðaleinkunn og Portúgalar koma þar á eftir með  87 í einkunn. Japanar voru hins vegar minnst ánægðir að meðaltali með 73 í einkunn.

Ferðamannapúlsinn mælir heildaránægju og heildarupplifun á heimsókn ferðamanna til Íslands og er samstarfsverkefni Gallup, Isavia og Ferðamálastofu. Mælingar hófust í mars á þessu ári og byggjast þær á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Púlsinn byggist á fimm spurningum sem allar vigta jafnt og mæla heildaránægju, gestrisni, hversu líklegir ferðamenn séu til að mæla með Íslandi sem áfangastað, uppfyllingu væntinga og hvort ferðin hafi verið peninganna virði.

Í ferðamannapúlsinum voru ferðamenn einnig spurðir frekar út í ferðalagið sitt á Íslandi. Samkvæmt púlsinum sækja fleiri ferðamenn landsbyggðina heim yfir sumartímann en að vetri til. Hlutfall þeirra ferðamanna sem sækja höfuðborgina heim helst stöðugt í kringum 95% en aðrir landshlutar fá mun hærra hlutfall ferðamanna að sumri til. Mestur reyndist munurinn á Norðurlandi og Vestfjörðum þar sem ríflega þrefalt fleiri heimsækja þá landshluta að sumri en að vetri.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson




22% nýta Airbnb og heimilisskipti

Að jafnaði segjast ríflega tveir þriðju hlutar erlendra ferðamanna nýta hótelgistingu í dvöl sinni yfir vetrarmánuðina en samsvarandi hlutfall fer hins vegar niður í 50% yfir sumartímann. Því lækkar hlutfall erlendra ferðamanna sem nýtir sér hótelgistingu um ríflega 16% milli vetrar og sumars. Á sama tíma eykst hlutfall þeirra sem nýta sér gistingu í heimahúsum (s.s. Airbnb, heimilisskipti og fleira) töluvert og nær upp í 29%, en alls segjast tæplega 22% hafa leigt sér íbúð í gegnum Airbnb.

Töluverður munur er á hlutfalli ferðamanna sem nýta sér rútuferðir og skipulagðar ferðir að vetri og sumri. Tæplega 53% nota rútur yfir vetrartímann en sama hlutfall er einungis 32% að sumri. Á sama tíma eykst hlutfall ferðamanna sem leigja bíla umtalsvert, úr 40% að vetri upp í 60% yfir sumarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK