Myndar 5.000 Íslendinga á ári

Ljósmyndarinn Gunnar Leifur Jónasson hefur verið í geiranum í 30 ár og lengst af rekið ljósmyndastofuna Barna- og fjölskylduljósmyndir. „Eftir að hafa starfað á blöðum og tímaritum í dálítinn tíma var það síðasta sort að fara í það að verða portrett-ljósmyndari, það þótti ekki áhugavert, “ segir Gunnar Leifur sem sér þó ekki eftir því að hafa söðlað um og sá fljótt að kostirnir voru margir við þennan anga ljósmyndunar. „Maður er endalaust að vinna fyrir hamingjusamt fólk, sem kemur með hvert fallega barnið á fætur öðru,“ og það er hverju orði sannara því Gunnari Leifi telst til að hann myndi um 5.000 Íslendinga á ári hverju við hin ýmsu tækifæri.

Rætt er við Gunnar Leif í þætti vikunnar af Fagfólkinu.

Galdurinn við að ganga vel í greininni segir hann að fanga augnablikið og persónuleika þeirra sem koma á stofuna. „Þetta snýst fyrst og fremst um það að tala við fólk og vera með fólki og í raun og veru snýst þetta mjög lítið um ljósmyndun sem slíka,“ segir Gunnar sem leggur mikla áherslu á að tæknin sé einungis verkfæri á meðan persónuleiki fólksins sé það sem skipti öllu máli í stúdíóinu hjá sér.

Fjölbreytileikann segir Gunnar vera einn stærsta kostinn við starfið en auk þess að taka myndirnar sé tölvuvinnan mikil, prentun og jafnvel smíði á römmum. Þá séu það mikil forréttindi að fá að starfa í fagi sem sé í raun áhugamál og hann upplifi sig ekki í vinnunni þegar hann sé að mynda.

Skíðadella hjá allri fjölskyldunni

Gunnar Leifur er fjögurra barna faðir og öll börnin hans hafa verið með mikla skíðadellu í gegnum tíðina sem hann segir hafa mótað sinn frítíma í gegnum tíðina þar sem hann hafi alltaf fylgt þeim á æfingar í gegnum tíðina. „Ég held að við séum með svona 80-90 skíðadaga á ári,“ segir Gunnar sem þeysist um brekkurnar á meðan krakkarnir eru á æfingum.

Þá hafi fjölskyldan farið í skíða- og keppnisferðir nánast árlega á undanförnum 10 árum. Perla Karen dóttir hans er enn að æfa og keppa í íþróttinni og Gunnar Leifur sér fram á að æfingar hefjist um helgina á Siglufirði en stafnan hefur verið sett á keppni í Austurríki í október.

Hann segir félagsskapinn í skíðaiðkuninni vera góðan. „Það er skemmtilegt fólk í skíðunum, þetta er allt svolítið bilað fólk sem er tilbúið  að leggja á sig og vera með fjölskyldunni. Það telur.“ Á þessum árum sem Gunnar Leifur hefur fylgt börnunum í skíðaiðkuninni hefur hann tekið mikið magn af myndum og segir léttur í brún að sér hafi farið mikið fram sem skíðaljósmyndara. „Þar skiptir míkró-sekúndan máli og það er gaman að ná augnablikunum í brautinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK