VÍS heldur endurkaupum áfram

Stjórn VÍS ákvað í dag að halda áfram endurkaupum á eigin hlutum félagsins í þeim tilgangi að lækka útgefið hlutafé. Þetta er fimmta endurkaupaáætlun félagsins sem kynnt er frá því aðalfundur 2015 veitti slíka heimild.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VÍS:

Stjórn VÍS tók í dag ákvörðun um að halda áfram endurkaupum á eigin hlutum félagsins í þeim tilgangi að lækka útgefið hlutafé þess. Þetta er fimmta endurkaupaáætlun félagsins sem kynnt er frá því að aðalfundur 2014 veitti slíka heimild.

Aðalfundur 2015 veitti stjórn heimild til að framkvæma endurkaupaáætlun þess efnis að kaupa allt að 10% af hlutum félagsins á 18 mánuðum þ.e. til 12. september 2016.

Stjórn VÍS ákvað 30. apríl 2015 að kaupa mætti eigin hluti fyrir allt að 1.000.000.000 kr. að markaðsvirði. Því var lokið sjö mánuðum síðar. Þá höfðu 4,88% af útgefnu hlutafé félagsins verið keypt eða tæplega helmingur þess sem aðalfundur hafði heimilað.

Á aðalfundi 16. mars 2016 var samþykkt að lækka eigin hluti VÍS. Hlutafjárlækkun var framkvæmd 13. apríl 2016 en þá fór hlutafé félagsins úr kr. 2.438.480.516 að nafnverði í kr. 2.296.436.567 að nafnverði.

Þann 24. apríl 2016 ákvað stjórn VÍS að halda endurkaupum áfram. Samkvæmt þeirri endurkaupaáætlun var áætlað að kaupa að hámarki hluti að nafnverði kr. 70.000.000 eða sem samsvarar 3,05% af útgefnu hlutafé félagsins. Fjárhæð endurkaupanna skyldi þó ekki verða hærri en kr. 600.000.000.  Endurkaupum þessum var lokið tæpum fjórum mánuðum seinna.

Heimild aðalfundar 2015 er enn í gildi en eftir standa um 2,31% af útgefnum hlutum félagsins sem félaginu er heimilt að endurkaupa.

Hámarksfjöldi hluta, sem áætlunin nú kveður á um að verði keyptir, eru að nafnverði kr. 12.500.000 hlutir, en það jafngildir um 0,55% af útgefnu hlutafé félagsins. Fjárhæð endurkaupanna verður þó aldrei hærri en kr. 100.000.000. Heimildin gildir til 12. september 2016.

Endurkaupin verða gerð af Arctica Finance hf. sem tekur allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna óháð félaginu.

Framkvæmd endurkaupaáætlunar og tilkynningar um viðskipti með eigin bréf verða í samræmi við lög og viðauka við reglugerð nr. 630/2005.

Kaupin verða framkvæmd í áföngum, þó þannig að kaup hvers dags verða að hámarki 1.155.814 hlutir sem nemur 25% af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf félagsins í Kauphöll Íslands í júlí 2016.

Verð fyrir hvern hlut skal að hámarki nema hæsta verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum sem kaupin fara fram í, hvort sem hærra er.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK