Dragist verulega saman á næsta ári

Ráðuneytið hefur sent greinagerð um Lindarhvoll til Alþingis.
Ráðuneytið hefur sent greinagerð um Lindarhvoll til Alþingis. mbl.is/Brynjar Gauti

Stefnt er að því að starfsemi Lindarhvols ehf. dragist verulega saman strax á árinu 2017 en áætlað er að á næsta ári verði aðeins um að ræða virka umsýslu á framseldum eignum að bókfærðu virði um 7,3 milljarðar króna og jafnframt eftirlit með skilyrtum fjársópseignum að bókfærðu virði um 6,6 milljarðar króna.

Þá verði áfram gætt hagsmuna ríkissjóðs vegna sölu á Arion banka hf. í gegnum eftirlitsaðila, skv. framsalssamningi Kaupþings hf.  Gerir Lindarhvoll ehf. ráð fyrir að Kaupþing ehf. muni selja Arion banka hf. að fullu eigi síðar en í árslok 2017.

Þetta kemur fram í greinagerð sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sent Alþingi með upplýsingum starfsemi Lindarhvols ehf. og framvindu vinnu við úrvinnslu þeirra stöðugleikaeigna sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Einnig er í greinargerðinni áætlun um framgang verksins til næstu mánaða.

Miðað við fyrrgreindar forsendur mun Lindarhvoll ehf. þá hafa ná markmiðum sínum fyrr en gert var ráð fyrir í upphaflegum áætlunum og mun starfsemi þess í árslok 2017 verða mjög óveruleg og snúa fyrst og fremst að almennum lagalegum frágangi félagsins ásamt því að ljúka uppgjöri á varasjóðum slitabúanna sem ljúka skal í síðasta lagi í árslok 2018. 

Hámarki verðmæti og lágmarki kostnað

Lindarhvoll ehf. og fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, undirrituðu hinn 29. apríl 2016 samning um umsýslu, fullnustu og sölu stöðugleikaeigna. Markmið samningsins er að Lindarhvoll ehf. hámarki verðmæti eignanna gagnvart ríkissjóði og lágmarki eins og kostur er kostnað við umsýslu þeirra  Skal félagið flýta sölu eignanna og endurheimtum eins og kostur er.

Lindarhvoll ehf. hefur því hafið fulla starfsemi og er dagleg umsýsla stöðugleikaeigna í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til félagsins í lögum, samningi við fjármála- og efnahagsráðherra og samþykktum reglum félagsins. Sú umsýsla felur í sér umsjón með eignum í umsýslu, utanumhald með greiðsluflæði vegna lánaeigna, endurskipulagningu eigna, sölu og fullnustu.  Umsýsla hinna skilyrtu fjársópseigna fer fram með reglulegum fundum með hverju og einu slitabúi til að tryggja sem best hagsmuni ríkissjóðs varðandi einstakar eignir sem falla undir þann flokk stöðugleikaeignanna. Eftirlit með eignum sem falla undir flokkinn framlag vegna viðskiptabanka var tryggt með þeim hætti að Steinar Þór Guðgeirsson hrl. var tilnefndur sem eftirlitsaðili („observer“) í stöðugleikasamningi við Kaupþing ehf.

Markmið Lindarhvols ehf. varðandi sölu og umsýslu stöðugleikaeignanna er að þeir fjármunir sem koma til greiðslu nemi að lágmarki bókfærðu virði þeirra en eins og áður er getið nam samtals bókfært virði allra stöðugleikaeigna í upphafi um 384,3 milljörðum króna við framsal þeirra í janúar 2016. 

Ljúki sölu á hlutabréfum í Lyfju eigi síðar en í desember

Ríkiskaup önnuðust í júní, að beiðni Lindarhvols ehf., milligöngu um öflun tilboða frá fjármálafyrirtækjum í að selja skráðar hlutafjáreignir í umsýslu félagsins og tilboða frá hugsanlegum ráðgjöfum í tengslum við sölumeðferð á Lyfju hf.

Á grundvelli þeirra tilboða sem bárust hefur Lindarhvoll ehf. ráðið Landsbankann hf. til að veita ráðgjöf við sölu skráðra eigna í umsýslu félagsins og Virðingu hf. sem ráðgjafa í tengslum við sölumeðferð á Lyfju hf. Í samræmi við reglur Lindarhvols ehf. um umsýslu, fullnustu og sölu eigna, þar sem fram kemur að sala og ráðstöfun skuli eiga sér stað að undangengnu opnu tilboðsferli þar sem gætt er gagnsæis og jafnræðis bjóðenda.

Er nú unnið að nánari útfærslu á söluferli fyrrnefndra eigna, sem kynnt verður nánar á næstu vikum. Við söluferli þeirra verður í samræmi við fyrrgreindar reglur lögð áhersla á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Áætlun Lindarhvols ehf. gerir ráð fyrir að sala á skráðum hlutabréfum í umsýslu félagsins verði lokið á haustmánuðum 2016 og sala á hlutabréfum í Lyfju hf. verði lokið eigi síðar en í desember 2016.

Óskráð hlutabréf í umsýslu Lindahvols ehf., önnur en hlutabréfin í Lyfju hf., munu verða seld í opnu söluferli og auglýst til sölu af Lindarhvoli ehf. á haustmánuðum og gera áætlanir Lindarhvols ehf. ráð fyrir að ljúka sölu stærstum hluta þeirra fyrir lok árs 2016.

Greinagerðina í heild sinni má sjá hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK