Ekki lengur bara álag á vorin og haustin

Ég man þá tíð fyrir þrjátíu árum þegar það kostaði …
Ég man þá tíð fyrir þrjátíu árum þegar það kostaði mánaðarlaunin að kaupa dekk undir jeppann sinn. Það er ekki þannig í dag sem betur fer,“ segir Magnús. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Gríðarleg­ur vöxt­ur ferðaþjón­ust­unn­ar síðustu ár hef­ur varla farið fram ­hjá mörg­um. Ferðaþjón­ust­an teyg­ir anga sína víða og eru það ekki bara ferðaskrif­stof­urn­ar og hót­el­in sem græða á sí­auk­inni komu er­lendra ferðamanna hingað til lands.

Dekkjaheildsalan Mítra ehf. finnur fyrir auknu og jafnara álagi yfir árið vegna ferðaþjónustunnar ásamt mikilli söluaukningu.

Í dekkjageiranum í fjörutíu ár

„Það fer ekkert milli mála,“ segir Magnús Arnarson, framkvæmdastjóri Mítru, í samtali við mbl.is og bætir við að þar séu bílaleigurnar að koma sterkastar inn. „Það er alveg gríðarlegur fjöldi bíla sem þær eru með og þær eru líka að koma inn á tímum sem þær voru ekki áður, t.d. á veturna.“

Mítra var stofnað árið 1995 og hefur Magnús verið í dekkjageiranum í fjörutíu ár.

„Þetta hefur alltaf verið þannig með dekkin að mánuðir eins og janúar og febrúar voru mjög rólegir hjá okkur en nú eru bílaleigurnar að koma inn á þeim tíma síðustu ár og líka í auknum mæli á sumrin,“ segir Magnús og bætir við að áður fyrr hafi vorin og haustin, þ.e. sá tími þegar fólk var að skipta í og úr nagladekkjum eða sumardekkjum, verið sá tími þegar mest að gera. Nú er mun jafnara álag yfir árið og segist Magnús fagna því.

Mítra mun lækka verð á dekkjum um 24% í haust.
Mítra mun lækka verð á dekkjum um 24% í haust. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lækka verðið um 24% í haust

Mítra sér líka um að dreifa dekkjunum og segir Magnús nóg að gera í því. „Við erum að senda töluvert af dekkjum út á land þar sem fólk er að skemma dekk og lendir í vandræðum. Það eru að miklu leyti bílaleigubílarnir með erlendum ferðamönnum,“ segir Magnús.

Fyrirtækið skaffar ekki rútufyrirtækjum dekk en þjónustar fyrirtækin þegar kemur að ýmiss konar fylgihlutum, þar á meðal viðgerðarefnum, ventlum og jafnvægislóðum, og finnur Magnús fyrir aukningu í því síðustu ár. Mítra er þó ekki enn farið að flytja inn dekk fyrir rútur en það er alltaf í skoðun. „Það er ekki beint út af eftirspurninni hér heldur eru þeir úti að þrýsta á okkur að fara að selja stærri dekkin,“ segir Magnús.

Mítra flytur m.a. inn dekk frá kínverska framleiðandanum Sailun. „Við vorum svo heppnir að detta niður á góðan framleiðanda með góða vöru. Það er líka oft þannig að verðið ræður miklu,“ segir Magnús en vegna gengisstyrkingar og hagstæðra aðstæðna í Kína verður fyrirtækið með 24% lægra verð milli ára á dekkjum í haust. Að sögn Magnúsar var verðið á dekkjunum hvað hæst í byrjun árs 2013 og segir hann það hafa lækkað um um það bil 32% síðan. 

Kostaði mánaðarlaunin að kaupa dekk

Magnús segir að með lækkandi verði á dekkjum verði það minni fyrirstaða fyrir fólk þegar kemur að því að vera með dekk sem eru í lagi, sérstaklega á veturna. „Það eru alltaf einhverjir sem gera sér ekki grein fyrir mikilvægi þess að vera með góð dekk,“ segir hann og bætir við að áður fyrr hafi það verið mun dýrara að kaupa dekk. „Ég man þá tíð fyrir þrjátíu árum þegar það kostaði mánaðarlaunin að kaupa dekk undir jeppann sinn. Það er ekki þannig í dag sem betur fer.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK