Engin merki um eignabólu

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans. mbl.is/Golli

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans sem á sæti í peningastefnunefnd, segir bankann ekki sjá merki um að eignabóla sé að myndast hér á landi, þrátt fyrir hækkun fasteignaverðs.

„Heimilin eru enn þá að spara og auka við sparnað sinn þrátt fyrir vöxt einkaneyslu,“ sagði Þórarinn á fundi peningastefnunefndar Seðlabankans með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun.

Heimilin telja sig vera ríkari 

„Hreint virði heimilanna hefur aukist töluvert síðustu tvö til þrjú árin. Heimilin telja sig vera orðin ríkari og eru að eyða hluta af því,“ sagði hann og og taldi engin hættumerki vera í gangi.

„Allir þeir mælikvarðar sem við horfum á varðandi það hvort það sé komin fasteignabóla benda til þess að svo sé ekki, þótt fasteignaverð sé að hækka.“

Hann sagði húsnæðisverðið hækka í takt við efnahagsástandið. Einnig séu að koma inn árgangar ungs fólks sem þrýsti upp húsnæðisverði, auk áhrifa frá ferðamönnum.

Gylfi Zoëga.
Gylfi Zoëga. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mjög sjaldgæft“

Gylfi Zoëga, prófessor við Háskóla Íslands og utanaðkomandi nefndarmaður, bætti því við að gríðarleg aukning ferðaþjónustu hafi haft mjög jákvæð áhrif hér á landi. „Skuldastaðan gagnvart útlöndum er að batna, hér er hagvöxtur, lágt atvinnuleysi, skortur á vinnuafli í mörgum greinum og verðbólgan er lág. Það er mjög sjaldgæft að við sjáum svona jákvæða mynd,“ sagði Gylfi.

Erlent vinnuafl mikilvægt

Hann sagði það skipta miklu máli í þessu samhengi að byggingariðnaðurinn og ferðaþjónustan ráði fólk frá Evrópu til starfa og það komi í veg fyrir að verðbólga fari á skrið. „Byggingariðnaðurinn og ferðaþjónustan virðast geta þanist út mjög mikið. Lykilatriðið varðandi peningastefnuna er hvort þessi mikla uppsveifla veldur verðbólgu eða ekki. Það fer eftir því að stórum hluta hvort þessar greinar ráði fólk erlendis frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK