Krefst lögbanns á hluthafafund VSV

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Brim hf., eigandi tæplega 33% í Vinnslustöðinni hf., fer fram á það við sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum að lögbann verði lagt við því að haldinn verði boðaður hluthafafundur í Vinnslustöðinni á miðvikudag til að kjósa félaginu nýja stjórn. Lögbannsbeiðnin verður tekin fyrir hjá sýslumanni í dag en niðurstöðu er ekki að vænta fyrr en síðdegis á morgun, að því er fram kemur á vef Vinnslustöðvarinnar (VSV).

Þar segir, að krafa um lögbann eigi rætur að rekja til deilna um stjórnarkjör á aðalfundi VSV 6. júlí. Fundarstjóri úrskurðaði að stjórnarkjörið væri ólögmætt þegar í ljós kom að ekki höfðu öll atkvæði í fundarsal skilað sér til talningar og að störfum talningarnefndar aðalfundar hefði ekki verið lokið. Hann lét endurtaka kosninguna með nýjum kjörseðlum.

Gerðarbeiðendur telja að fyrri kosningin á aðalfundinum hafi verið lögmæt og eigi að standa. Stjórnin sem kjörin var sé ólögmæt og því umboðslaus. Í greinargerð lögmanns Brims kemur fram að „töluverð hætta“ sé á að gerðarbeiðandi lögbannsins verði fyrir „óafturkræfu tjóni og að réttindi hans fari forgörðum ef beðið verður dóms.“

„Lögmaður VSV hafnar því að tilefni lögbanns sé til staðar og segir að ekki verði séð „hvernig gerðarþoli geti orðið fyrir stórtjóni við það eitt að félagið fari að lögum og boði til hluthafafundar þegar þess er krafist.“ Hann segir enn fremur í greinargerð sinni til sýslumanns að í ljósi deilna á aðalfundinum ríki óvissa um hverjir réttilega skipi stjórn VSV. Við slíkt sé ekki búandi af hálfu gerðarþolans, þ.e. Vinnslustöðvarinnar, og því sé nú boðað til hluthafafundar sem hafi það hlutverk eitt að ákvarða hverjir skuli sitja í stjórn félagsins. Ekki verði annað séð en hagsmunir gerðarbeiðanda og gerðarþola fari saman með því að eyða þannig óvissunni.

Þá kemur fram í greinargerð lögmanns VSV að stjórnarmaðurinn Ingvar Eyfjörð hafi ekki viljað undirrita tilkynningu til fyrirtækjaskrár embættis ríkisskattstjóra um stjórnarkjör á aðalfundinum í júlí og því hafi slík tilkynning ekki verið send. Ingvar hafi samt setið stjórnarfund í framhaldi af aðalfundi og ekki gert athugasemdir við ákvörðun um skiptingu verka innan stjórnar. Nú sé meira en mánuður liðinn frá aðalfundi og fyrirtækjaskrá taki ekki við tilkynningum um nýjar stjórnir félaga ef meira en mánuður líði frá stjórnarkjöri. Í slíkum tilvikum þurfi nýjan fund sem staðfesti fyrri ákvörðun eða kjósi nýja stjórn. Því sé ómögulegt að skrá nýja stjórn VSV nema nýr hluthafafundur ákvarði skipan stjórnarinnar,“ segir í frétt á vef VSV.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK