Apple þarf að greiða 13 milljarða evra

AFP

Banda­ríski tölvuris­inn Apple þarf að greiða 13 millj­arða evra, 1.707 milljarða króna, aft­ur­virkt í skatta á Írlandi samkvæmt tilkynningu frá sam­keppnis­eft­ir­liti Evr­ópu­sam­bands­ins. 

Evr­ópu­sam­bandið hef­ur frá árinu 2014 rann­sakað skatta­mál Apple á Írlandi og er þetta hæsta skatta­sekt sem dæmd hef­ur verið í Evr­ópu. Það er niðurstaða framkvæmdastjórnar ESB að skattaívilnanir sem írsk yfirvöld hafa veitt Apple séu ólöglegar. Rannsóknin á Apple er ein af mörgum sem framkvæmdastjórn ESB hefur látið gera á skattamálum bandarískra fyrirtækja innan ESB og hefur þetta vakið reiði meðal bandarískra stjórnvalda.

AFP

Írsk stjórnvöld ætla að áfrýja niðurstöðunni en það er niðurstaða samkeppniseftirlitsins að skattaívilnanir sem írska ríkið hefur veitt fyrirtækjum brjóti gegn lögum sem gilda um ríkisaðstoð innan ESB. Því samkvæmt samkomulagi írskra skattayfirvalda og Apple þá þurfti bandaríska stórfyrirtækið að greiða umtalsvert lægri skatta en önnur fyrirtæki. Írska ríkinu er gert í niðurstöðu framkvæmdastjórnarinnar að endurheimta þetta fé úr fórum Apple.

Margrethe Vestager sem fer með samkeppnismál í framkvæmdastjórn ESB, segir að sú sérmeðferð sem Apple hefur fengið í Írlandi þýði að fyrirtækið hafi greitt rúmlega 1% af tekjum sínum í Evrópu í skatt árið 2003 og árið 2014 hafi hlutfallið verið 0,005%.

Þetta hafi gert það að verkum að Apple hafi komist hjá því að greiða skatta af framleiðslu sinni á öllum mörkuðum fyrirtækisins innan ESB.

Írar hafa um árabil reynt að laða til sín bandarísk alþjóðafyrirtæki með því að bjóða þeim ótrúlegar skattaívilnanir, samninga sem nefndir eru „sweatheart deals“ á ensku.

Fjármálaráðherra Írlands, Michael Noonan,mótmælir þessari niðurstöðu ESB harðlega og segir að írska ríkið eigi ekki annars kost en að áfrýja. Noonan segir að hann muni óska eftir því í ríkisstjórn Írlands að fá heimild til þess að fara með málið fyrir Evrópudómstólinn.

Apple hefur verið með starfsstöð í Cork síðan árið 1980 og eru starfsmenn fyrirtækisins fimm þúsund talsins á Írlandi. Í gegnum þessa starfsstöð fara fram viðskipti Apple í Evrópu og með því hefur fyrirtækið komist hjá því að greiða milljarða evra í tekjuskatt fyrirtækja.

Apple mun einnig áfrýja niðurstöðunni og segir í tilkynningu frá fyrirtækinu að ákvörðun ESB komi til með að hafa slæm áhrif á atvinnumál og fjárfestingar í Evrópu.

„Við munum áfrýja og við erum sannfærð um að ákvörðuninni verður snúið við,“ segir í tilkynningu frá Apple. 

Frétt mbl.is: Úrskurður í Apple skattamálinu á morgun

Apple
Apple AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK