Byrja snemma og hætta seint

Mun fleiri erlendir ríkisborgarar á vinnualdri hafa flutt hingað til …
Mun fleiri erlendir ríkisborgarar á vinnualdri hafa flutt hingað til lands undanfarin misseri en í fyrra. mbl.is/

Um 90% íslenskra kvenna eru á vinnumarkaði sem er meira en víðast hvar. Íslendingar byrja snemma að vinna og hætta seint, samkvæmt Hagsjá, riti hagfræðideildar Landsbankans, þar sem fjallað er um íslenskan vinnumarkað.

Atvinnuþátttaka er með mesta móti hér á landi í samanburði við önnur lönd. Hér er þátttaka kvenna á vinnumarkaði meiri en víðast hvar og þá byrja Íslendingar yfirleitt snemma á ævinni að vinna og hætta því seint.

Atvinnuþátttaka karla orðin eins og 2007

Atvinnuþátttaka er nátengd hagsveiflunni og er jafnan töluvert meiri meðal karla en kvenna. Sé litið nánar á þróunina má glöggt sjá að samdráttarskeiðið sem hófst 2008 hafði mun meiri áhrif á atvinnuþátttöku karla en kvenna, enda varð atvinnuleysi meðal karla meira en kvenna á þessum árum. Atvinnuþátttaka karla lækkaði um rúm 5% frá 2008 til ársins 2012, en er nú orðin jafnmikil og hún var á árinu 2007, samkvæmt samantekt hagfræðideildar Landsbankans í ritinu Hagsjá.

Þróunin meðal kvenna er með dálítið öðrum hætti. Sé litið á tímabilið frá árinu 2003 var atvinnuþátttaka þeirra mest á árinu 2015 og fyrri hluta ársins 2016.

Á þessu tímabili hefur hlutfall atvinnuþátttöku kvenna að jafnaði verið um 91% af þátttöku karla. Hlutfallið var um 90% fyrir hrun en hækkaði svo upp í 93% fram til 2012 þegar þátttökuhlutfall karla minnkaði. Hlutfall kvenna á móti körlum hefur svo lækkað nokkuð síðan.

Atvinnuleysi hefur minnkað hratt á undanförnum misserum og mælingar Hagstofu Íslands fyrir annan ársfjórðung í ár sýndu minnsta atvinnuleysi á þessum fjórðungi síðan 2008.

Mikil aukning í innflutningi á vinnuafli

Í júlí var skráð atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar 2% og meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánuði 2,5%. Samhliða aukinni eftirspurn í hagkerfinu hefur spurn eftir vinnuafli aukist mikið og segja má að vinnumarkaðurinn sé þannig kominn í „eðlilega“ stöðu. Ætla má að spurn eftir vinnuafli verði áfram mikil á næstu misserum og staða atvinnumála góð, segir í Hagsjá Landsbankans.

„Nú er svo komið að áhyggjur manna beinast ekki eins mikið að atvinnuleysinu og verið hefur heldur meira að mönnun starfa og þörf á innflutningi erlends vinnuafls. Fyrirtæki virðast í auknum mæli bregðast við þessari stöðu með innflutningi vinnuafls.

Á fyrri helmingi ársins 2016 fluttust um 2.200 fleiri erlendir ríkisborgarar á vinnualdri til landsins en frá því. Þar var um meira en tvöföldun að ræða frá sama tíma 2015 þegar rúmlega 1.000 fleiri komu til landsins en fóru frá því,“ segir í Hagsjá en ritið er hægt að lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK