„Ekki fer maður í verkfall“

Snædís hóf sauðfjárbúskap í júní í fyrra.
Snædís hóf sauðfjárbúskap í júní í fyrra. Aðsend mynd

„Þetta er það eina sem maður getur gert til að bæta kjörin, ekki fer maður í verkfall,“ segir bóndinn Snædís Anna Þórhallsdóttir, á Hesti í Borgarfirði, en hún selur lambakjöt beint til neytenda. Snædís segir lækkaða verðskrá sláturhúsanna hafa gríðarleg áhrif á tekjur hennar og eiginmanns hennar og að sala beint til neytenda sé það eina sem þau geti gert til að auka tekjurnar.

Þau hafa verið sauðfjárbændur í rúmt ár, síðan júní í fyrra, og hafa stundað heimasölu síðan þá. Nú ætla þau þó að leggja meiri áherslu á hana vegna breyttrar verðskrár sláturhúsanna.

„Hjá sláturhúsinu sem við notum er þetta 12% lækkun milli ára en í raun 14% ef miðað er við vísitöluverðhækkun. Þetta er auðvitað gríðarlegur munur, þetta eru næstum því hálf árslaun hjá öðru okkar,“ segir Snædís. 

Vita hvaða lamb fer hvert

Snædís segir aukna umræðu um heimasölu í kjölfar verðlækkana koma sér vel og segist finna fyrir auknum áhuga fólks á að versla beint við bændur. „Margir bændur hafa verið að tala og skrifa um þetta til að fá fólk til að kaupa beint af býli. Við leggjum áherslu á rekjanleika og með þessu vitum við hvaða lamb fer til hvaða viðskiptavina,“ segir Snædís og bætir við að sér hafi alltaf fundist skrýtið að númer lambsins fylgi því í gegnum allt ferlið hjá sláturhúsunum en sé tekið í burtu þegar kjötið er komið í búðirnar.

„Ef fólk vill vita meira um matinn sinn og hvernig farið hefur verið með dýrin er þetta mjög góð lausn. Hingað eru allir velkomnir í heimsókn til að sjá aðbúnaðinn og fullvissa sig um að þeir séu að fá gott kjöt,“ segir hún en Hestur er í eigu Landbúnaðarháskólans en Snædís og eiginmaður hennar Helgi Elí Hálfdánarson reka búið.

Selja kílóið á 1.300 krónur

Að sögn Snædísar bjóða þau upp á ýmsa möguleika fyrir neytendur, þ.e. stóra skrokka eða litla, mikla fitu eða litla og svo framvegis. Selja þau kílóið á 1.300 krónur með virðisaukaskatti. „Við getum náttúrulega ekki verið í verðsamkeppni við búðir eins og Bónus og þar er örugglega hægt að fá eitthvað ódýrara. En við viljum meina að með því að gera þetta svona viti fólk nákvæmlega hvað það er að fá, það er vörur frá fólki sem fer vel með dýrin sín, eins og langflestir bændur.“

Hægt er að fræðast um búið á Facebook-síðu þess og einnig nálgast upplýsingar um hvernig sé hægt að panta kjöt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK