Geta fengið 2 milljarða í sinn hlut

Starfsmennirnir máttu ekki selja bréfin í þrjú ár og rann …
Starfsmennirnir máttu ekki selja bréfin í þrjú ár og rann sá tími út 1. september. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Hátt í tveir milljarðar króna geta runnið til núverandi og fyrrverandi starfsmanna Landsbankans, taki þeir boði um að selja bankanum hlutabréf sín. Þeir framkvæmdastjórar sem eiga stærstan hlut í bankanum geta fengið um fimm og hálfa milljón króna ef þeir selja.

Í frétt RÚV kom fram að um 1.400 þáverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans fengu afhent hlutabréf í bankanum árið 2013, við blendin viðbrögð samfélagsins. Bréfunum var úthlutað samkvæmt samningi sem ríkið gerði við gamla og nýja Landsbankann eftir hrun. Sögðu forsvarsmenn bankans að kröfuhafar vildu að starfsmenn fengju hvata til að hámarka verðmæti skuldabréfa sem óvissa var um heimtur á.

Starfsmennirnir undirgengust þá þau skilyrði að þeir mættu ekki selja bréfin í þrjú ár. Sá tími rann út 1. september og mega starfsmennirnir nú selja bréfin hverjum sem er.

Hlutur starfsmannanna núverandi og fyrrverandi nemur samtals 0,78% hlut í bankanum, ríkið á 98,2%, Landsbankinn sjálfur á 0,91% og fyrrum stofnfjárhafar í sparisjóðum Vestmannaeyja og Norðurlands 0,11%.

Landsbankinn hefur hins vegar nú boðist til að kaupa allt að 2% hlut í bankanum af hluthöfum og er það boð öllum hluthöfum opið, líka ríkinu. 

Uppfært 23.9.2016 Eftir athugasemd frá Landsbankanum var fréttinni breytt. Af frétt RÚV sem Mbl.is vísaði til mátti skilja að hátt í tveir milljarðar króna gætu runnið til núverandi starfsmanna Landsbankans. Hið rétta er að hlutabréfin eru í eigu núverandi og fyrrverandi starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK