Snapchat framleiðir gleraugu

Gleraugun er talin frekar kúl og að þau muni höfða …
Gleraugun er talin frekar kúl og að þau muni höfða til unga fólksins og frægra einstaklinga. AFP

Seinna á árinu mun Snapchat hefja sölu á sérstökum gleraugum sem geta tekið myndbönd í allt að 30 sekúndur í einu. Gleraugun munu heita Spectacles munu kosta um 130 bandaríkjadali eða tæpar 15.000 íslenskar krónur.

Snapchat tilkynnti um gleraugun um helgina og jafnframt um nafnabreytingu en hér eftir heitir félagið Snap, Inc en ekki Snapchat. Samfélagsmiðillinn mun þó halda nafni sínu.

Nafnabreytingin er sögð vera hluti af stefnu Snapchat um að þróast lengra en samfélagsmiðillinn sem er gríðarlega vinsæll meðal yngra fólks.

Evan Spiegel, stofnandi Snapchat, greindi frá gleraugunum í samtali við Wall Street Journal á föstudaginn. Í greininni mátti einnig sjá myndir af honum með gleraugun sem enginn annar en Karl Lagerfeld tók.

Í viðtalinu sagðist Spiegel hafa prófað gleraugun í þjóðgarðinum Big Sur í Kaliforníu og að myndirnar sem gleraugun tóku hafi verið ótrúlegar. „Það er eitt að sjá myndir af upplifun þinni en allt annað að vera með upplifun á upplifuninni. Með því að skoða myndirnar komst ég næst því að finnast ég vera kominn þangað aftur.“

Á laugardaginn birti Snap upplýsingar um hvernig gleraugun munu virka. Myndefnið verður tekið upp í hringlaga sniði sem hægt er að horfa á úr hvaða átt sem er. Rafhlaðan á gleraugunum á síðan að endast í um dag. Þá mun ljós framan á gleraugunum gefa til kynna að gleraugun eru að taka upp.

Spectacles minnir marga eflaust á Google Glass, misheppnaða tilraun Google til þess að búa til snjallgleraugu. Gleraugun komust aldrei í dreifingu og var framleiðsla þeirra stöðvuð. Google heldur því þó enn fram að hugmyndin sé enn í þróun.

Samkvæmt frétt BBC er talið líklegt að Spectacles muni höfða frekar til yngra fólks og frægra einstaklinga og verði talin meira „kúl“ en tilraun Google.

Er hönnun þeirra talin mjög í tísku og þar sem þau eru líka sólgleraugu er auðveldara að fela gleraugun. Á sama tíma er hinsvegar erfiðara að taka upp í myrkri.

Í samtali við WSJ sagði Spiegel að gleraugun verði ekki framleidd í tonnatali fyrst um sinn. „Við ætlum að taka þessu rólega og ekki henda þeim út,“ sagði Spiegel. „Þetta snýst um að komast að því hvort þetta passi inn í líf fólks og hvort það verði ánægt með gleraugun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK