120 taka þátt í Iceland Fishing Expo

Unnið að uppsetningu sýningarinnar í gær.
Unnið að uppsetningu sýningarinnar í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sýningin Sjávarútvegur 2016 eða Iceland Fishing Expo 2016 verður sett í Laugardalshöll á morgun og stendur fram á föstudag. Um 120 innlendir og erlendir aðilar taka þátt í sýningunni sem haldin verður í báðum höllum Laugardalshallar í Reykjavík og á útisvæði. 

Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegsráðherra setur sýninguna formlega að viðstöddum forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni og fleiri gestum. Við það tækifæri mun Eliza Jean Reid forsetafrú, veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi störf í greininni.

Í fréttatilkynningu segir að á sýningunni verði kynntar margvíslegar nýjungar sem tengjast sjávarútvegi og spanna allt frá stórum hátækni fiskvinnsluvélum til smærri nýjunga fyrir fiskiskip og fiskvinnslur.  Þetta er fyrsta alþjóðlega sjávarútvegssýningin sem haldin er hér á landi sem er alfarið í höndum íslenskra aðila.

Undirbúin í eitt og hálft ár

Unnið hefur verið að undirbúningi sýningarinnar í eitt og hálft ár og er nokkuð síðan allt sýningarpláss seldist upp. Í fréttatilkynningunni er vitnað í Ólaf M. Jóhannesson framkvæmdastjóra sýningarinnar sem segir að lögð hafi verið áhersla á að stilla kostnaði við sýninguna í hóf og freista þess að ná þannig til breiðari hóps sýnenda.   „Það er hefur verið metnaður okkar frá byrjun að geta boðið upp á glæsilega sýningu sem endurspegli þverskurð af því besta sem íslenskur sjávarútvegur og tengdar greinar hafa upp á að bjóða. Það hefur gengið eftir. Þessi sýning á að vera vettvangur þar sem fagaðilar og annað áhugafólk um sjávarútveg getur komið og kynnt sér milliliðalaust helstu framfarir og nýjungar í greininni.“ 

Eliza verndari sýningarinnar

Eliza Jean Reid forsetafrú er verndari sýningarinnar og við opnun hennar mun hún veita viðurkenningar til þeirra sem skarað hafa fram úr í greininni í ár að mati nokkurra helstu samtaka í sjávarútvegi. Samtökin sem veita verðlaun á þessari fyrstu sýningu eru: Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, Sjávarklasinn, Sjómannasamband Íslands og Landsamband smábátaeigenda sem mun útnefna trillukarl ársins.

Opnunarathöfn sýningarinnar hefst klukkan 14 á morgun og er ætluð boðsgestum en að henni lokinni klukkan 15 verður sýningin opnuð almenningi. Næstu þrjá daga verður sýningin opin sem hér segir:

Miðvikudag frá klukkan 15-19, fimmtudag frá klukkan 10-18 og föstudag frá klukkan 10-18.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK