„Gerðu það sem þú þarft að gera“

Málið hefur vakið mikla reiði og gagnrýni á bandaríska bankakerfið
Málið hefur vakið mikla reiði og gagnrýni á bandaríska bankakerfið AFP

Fyrrverandi starfsmenn bandaríska bankans Wells Fargo hafa nú komið fram og sagt að svindl bankans, þ.e. að stofna reikninga fyrir fólk án vitundar þeirra til að ýta undir sölutölur, hafi verið í gangi mun lengur en bankinn vill viðurkenna.

„Þetta hafði verið í gangi löngu fyrir 2011,“ sagði Susan Fischer, fyrrverandi útibússtjóri hjá Wells Fargo sem vann hjá bankanum í fimm ár og hóf þar störf árið 2004.

Upp komst fyrr í mánuðinum að starfsmenn Wells Fargo hefðu opnað allt að tvær milljónir „gervireikninga“, þ.e. reikninga sem voru í nöfnum viðskiptavina sem hefðu ekki beðið um eða vitað af þeim, frá árinu 2011. 5.300 starfsmönnum bankans hefur verið sagt upp eftir að málið komst í dagsljósið.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hóf rannsókn á málinu fyrir tveimur vikum síðan og hefur það verið rætt tvisvar á þingfundum.

Bankastjórinn John Stumpf kom fram fyrir nefnd öldungadeildarþingmanna í síðustu viku og mun koma fram fyrir aðra þingmenn á fimmtudaginn.

John Stumpf bankastjóri Wells Fargo
John Stumpf bankastjóri Wells Fargo AFP

Veiktist vegna álags

Fischer segist muna eftir því að svæðisstjóri bankans þar sem hún starfaði, hafi sagt henni  að láta starfsmenn hennar opna reikninga án vitundar viðskiptavina. Var það um ári eftir að hún hóf störf sem útibússtjóri í Arizona.

„Svæðisstjórinn sagði bara ‚Gerðu það sem þú þarft að gera´,“ sagði Fischer sem segist hafa neitað að taka þátt í svindlinu. Yfirmenn hennar sögðu henni í kjölfarið að hún væri ekki að ná markmiðum sínum og fljótlega þurfti Fischer að taka veikindaleyfi vegna álagsins á vinnustaðnum. Hún fékk þó ekki að koma aftur til starfa eftir að leyfinu lauk. „Ef einhver segir ekki frá fær þetta að halda áfram,“ sagði hún aðspurð af hverju hún ákvað að segja sannleikann núna.

Frásögn Fischer passar við aðrar frásagnir fyrrverandi starfsmanna sem ræddu við CNN. Þeir voru sammála um það að stjórnendur bankans hefðu gert líf þeirra „erfið“ hafi þeir ekki náð sölumarkmiðum. Ekki er vitað hvenær að bankinn hóf svindlið upphaflega eða hversu útbreitt það var fyrir árið 2011. Stumpf sagði frá því í síðustu viku að rannsókn bankans á málinu myndi ná aftur til ársins 2009.

Sendu debetkortin í bankann

Denny Russo hóf störf hjá bankanum árið 2010 í Kaliforníu. Hann sagði í samtali við CNN að þá væri svindlið löngu byrjað. Sagði hann jafnframt að það skipanirnar um að stofna gervireikningana hafi komið af ofan, frá stjórnendum bankans.

Emilie Ward starfaði sem gjaldkeri hjá bankanum í Minnesota og sagði í samtali við CNN að viðskiptavinir hefðu oft ekki haft hugmynd um reikninga í þeirra nafni. „Starfsmennirnir bjuggu til debetkort fyrir fólk án vitneskju þeirra og létu senda þau í bankann,“ sagði Ward.

Umfjöllun CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK