Draga úr framleiðslu og olíuverð hækkar

Fundur OPEC-ríkjanna fer fram í Alsír.
Fundur OPEC-ríkjanna fer fram í Alsír. AFP

Samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) samþykktu í dag að draga úr olíuframleiðslu um 750 þúsund tunnur á dag. Þetta hefur Bloomberg fréttaveitan eftir meðlimi í samtökunum. Fréttirnar urðu til þess að verð á hráolíu hækkaði strax um 5% á markaði, en markaðsaðilar höfðu gert ráð fyrir að fundurinn aðildarríkjanna myndi enda án niðurstöðu.

Verð á Brent Norðursjávarolíu hækkaði í kauphöllinni í London um 2,72 dali upp í 48,69 dali. Í New York hækkaði verð á hráolíu um 2,38 dali og fór upp í 47,05 dali. 

OPEC-samtökin samanstanda af nokkrum af stærstu olíuframleiðsluríkjum heims og framleiða þau um 40% af heimsframleiðslunni. Með ákvörðuninni í dag mun framleiðsla þeirra dragast saman niður í 32,5 milljón tunnur á dag.

Fundur samtakanna fór fram í Alsír og var tilgangur hans að ræða mögulegan samdrátt á framleiðslu til að ýta undir verðhækkanir, en olía hefur lækkað um meira en helming síðan um mitt ár 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK