Rafha fagnar 80 ára afmæli

Nokkur helstu Rafha heimilistækin. Þarna má meðal annars sjá eldri …
Nokkur helstu Rafha heimilistækin. Þarna má meðal annars sjá eldri og yngri gerð eldavélanna og þvottavélina Mjöll.

Um þessar mundir eru liðin 80 ár frá stofnun Raftækjaverksmiðjunnar hf. í Hafnarfirði eða Rafha. Flestir þekkja Rafha eldavélina, en um skeið framleiddi Rafha mun fleiri tegundir raftækja. Framleiðslu var hætt árið 1990 en verslun Rafha er enn starfandi.

Í fréttatilkynningu frá Rafha kemur fram að hugmyndin að stofnun Rafha hafi kviknað um þær mundir sem unnið var að smíði Sogsvirkjunar. Heimilin voru að rafvæðast og það vantaði rafmagnstæki. Að tillögu Emils Jónssonar, þingmanns Hafnfirðinga, samþykkti Alþingi árið 1936 að verja 50 þúsund krónum úr ríkissjóði til stofnunar raftækjaverksmiðju. Það varð úr og Rafha var formlega stofnað 29. október 1936, en íslenska ríkið fór með þriðjungshlut á móti 22 einstaklingum.

Framleiðslan stórjókst eftir stríð og samið var við sænska fyrirtækið Electrolux um notkun einkaleyfa þeirra. Meðal nýjunga má nefna Rafha ryksugur og þvottavélina Mjöll, sem framleidd var í samstarfi við Vélsmiðjuna Héðinn. Einnig voru framleiddir rafmótorar, bökunarofnar, kæliskápar, kaffikönnur og miðstöðvarhitarar meðal annars.  Á 25 ára afmælinu 1961 höfðu verið framleidd yfir 108 þúsund raftæki.

Árið 1990 var rekstri verksmiðjunnar hætt en verslunarhlutinn, viðskiptatengsl og nafnið Rafha var þá selt þáverandi framkvæmdastjóra Ingva Ingasyni og fjölskyldu hans sem hélt fyrirtækinu gangandi og þjónustaði áfram tugþúsundir viðskiptavina. Nokkru síðar var verslunin flutt á Suðurlandsbraut 16 í Reykjavík og starfar þar enn. Í dag flytur Rafha inn og selur heimilistæki frá framleiðendum á borð við Electrolux, Zanussi, AEG, Siemens, Bosch, Domo, Tristar og Sola ásamt eldhúsinnréttingum frá danska merkinu KVIK.

Í tilkynningu kemur fram að Rafha bjóði öllum að fagna þessum merku tímamótum um næstu helgi og allan októbermánuð með góðum tilboðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK