Hver ber ábyrgð á ólöglegum viðskiptum?

Kauphöllin og FME tókust á um það í bréfaskriftum árið …
Kauphöllin og FME tókust á um það í bréfaskriftum árið 2011 hver ábyrgð þeirra væri á eftirliti með viðskiptum sem fóru fram í Kauphöllinni fyrir hrun. FME sakaði Kauphöllina um að hafa ekki sinnt því hlutverki með fullnægjandi hætti. mbl.is/Hjörtur

Viðskiptavakt, óformleg viðskiptavakt eða viðskiptavaki eru líklega orð sem fáir velta fyrir sér dagsdaglega en eru í raun hugtök sem skipta nú heilmiklu máli í markaðsmisnotkunarmálum föllnu bankanna. Hæstaréttardómur í fyrsta slíka málinu, hjá Landsbankanum, féll í febrúar á þessu ári, en von er á dómi í Kaupþingsmálinu í þessari viku og þá er nú mál Glitnis rekið í héraðsdómi.

Eftir hrunið hafa hinir ýmsu aðilar sem tengdust fjármálalífinu bæði fyrir og eftir hrun, komið sinni hlið og sýn á framfæri. Hefur þetta meðal annars verið gert í fjölda bóka, fyrir dómstólum og í greinum sem hafa verið skrifaðar. Í eitt skiptið tókust á fyrrverandi yfirlögfræðingur Kaupþings, sem seinna gerðist verjandi ákærðs manns í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans og yfirmenn Kauphallar Íslands með greinarskrifum sem stóðu í nokkra mánuði. Snýst sú umræða um hvort Kauphöllin hafi brugðist eftirlitsskyldu sinni og horft framhjá því að bankarnir héldu úti svokallaðri óformlegri viðskiptavakt með eigin bréf, sem Hæstiréttur dæmdi svo ólöglega.

Áður óbirt bréf milli FME og Kauphallarinnar

Inn í þá umræðu tengjast mjög beinskeyttar bréfaskriftir milli Kauphallarinnar og Fjármálaeftirlitsins (FME) frá því árið 2011, þar sem FME segir Kauphöllina ekki hafa sinnt rafrænu eftirliti með íslenska markaðinum með fullnægjandi hætti fyrir bankahrunið. Svarar Kauphöllin fyrir sig og dregur meðal annars í efa óhlutdrægni starfsmanna FME. mbl.is birtir nú þessi bréfaskrif stofnananna fyrst opinberlega, en þau voru hluti af málsgögnum í fleiri hrunmálum. Eru þessi bréf og þau dómsmál sem nú eru í gangi ákveðin birtingarmynd af því uppgjöri sem á sér stað um það hverjir beri ábyrgð á bankahruninu, eða allavega þeim hluta sem tengist þeirri markaðsmisnotkun sem hefur verið ákært fyrir og dæmt í einu máli. Hvort að það hafi eingöngu verið bankamenn eða hvort FME eða Kauphöllin eigi þar hlut að máli.

Hvað er viðskiptavakt?

En byrjum á byrjuninni. Viðskiptavakt er það þegar fjármálafyrirtæki gerir samning við fyrirtæki á markaði um að leggja fram á hverjum tíma bæði kaup- og sölutilboð á ákveðnu verðbili til að stuðla að góðri verðmyndun og seljanleika hlutabréfa á markaði. Þessi aðferð er heimil samkvæmt lögum og virðast allir telja þetta eðlilegan hluta af því hvernig hlutabréfamarkaðurinn virkar. Fyrir hrun voru bankarnir allir aftur á móti einnig með svokallaða óformlega viðskiptavakt. Þar áttu þeir viðskipti með eigin bréf fyrir eigin reikning í sama tilgangi og formlega viðskiptavaktin. Í markaðsmisnotkunarmálum bankanna hefur saksóknari haldið því fram að slík vakt hafi falið í sér markaðsmisnotkun þar sem bankarnir hafi annað hvort dregið úr eða komið í veg fyrir að bréf bankanna lækkuðu þegar söluþrýstingur var á markaðinum.

Ákærðu í markaðsmisnotkunarmálunum hafa alltaf sagt að þessi háttur hafi verið eðlilegur og lengi við hafður og verið á allra vitorði. Í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings voru rök saksóknara aftur á móti þau að aldrei hafi verið tilkynnt formlega um þessa viðskiptavakt, t.d. í skráningarlýsingum og því gætu almennir hluthafar ekki vitað um þetta fyrirkomulag.

Hæstiréttur skýr í dómi sínum

Hæstiréttur var nokkuð skýr um þetta atriði í dómi sínum í Landsbankamálinu. „Skal viðskipta­vaki til­kynna um samn­ing­inn og sé samið um viðskipti fyr­ir reikn­ing út­gef­anda skal tryggt að hon­um sé ekki unnt að hafa áhrif á ákv­arðanir um viðskipti á grund­velli samn­ings­ins,“ seg­ir Hæstirétt­ur og bæt­ir við: „. Með gagnálykt­un frá þess­ari laga­grein er fjár­mála­fyr­ir­tæki, sem ann­ast verðbréfaviðskipti, óheim­ilt að tak­ast á hend­ur viðskipta­vakt með eig­in hluti.“

Vegna þessa vakna upp spurningar um hvers vegna bönkunum hafi leyfst að halda slíka óformlega viðskiptavakt eins lengi og raun bar vitni án athugasemda eftirlitsaðila, en í skýrslutökum fyrir héraðsdómi í Kaupþingsmálinu sögðu fjölmörg vitni að þau hafi þekkt til þess að deild eigin viðskipta bankans stunduðu slíka vakt.

Tekist á með greinarskrifum

Í júlí á þessu ári skrifaði Helgi Sigurðsson, lögmaður og fyrrverandi aðallögfræðingur Kaupþings, grein í Fréttablaðið þar sem hann vísaði í orð Páls Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar, um að þeir sem dæmdir væru ættu að líta í eigin barm. Sagði Helgi„sérkennilegt að sérfróður eftirlitsaðili á markaði [innsk. blm: Kauphöllin] sem gerði engar athugasemdir við framkvæmd viðskiptanna skuli nú höfða til ábyrgðartilfinningar” þeirra sem dæmdir hafa verið. Vísar Helgi svo til fyrrgreindra bréfaskrifta milli FME og Kauphallarinnar og segir að jafnvel þremur árum seinna hafi Kauphöllin ekki þar gert athugasemdir við viðskipti bankanna með eigin bréf.

Vissu um óformlega viðskiptavakt

Kauphöllin svaraði þessu til og sagðist hafa gert athugasemdir við þátt eigin viðskipta bankans og talið viðskiptin stangast á við lög. Varði jafnframt Kauphöllin það að hún hafi ekki getað greint markaðsmisnotkunina fyrr með því að segja „Við greiningu á viðskiptum bankanna haustið 2008 blasti ekki við að Landsbankinn hefði verið umfangsmikill kaupandi eigin hlutabréfa í pöruðum viðskiptum.” Þá sé rétt að fyrirtæki fylgi tilkynntum endurkaupaáætlunum hyggist þau kaupa eigin bréf, en ekki vera með óformlega viðskiptavakt.

Helgi svaraði þessu bréfi og sagði að Kauphöllinni hefði láðst að láta markaðsaðila sem stunduðu viðskipti með eigin bréf vita að þau stönguðust á við lög, en árið 2007 féll dómur þar sem lög um verðmyndun á verðbréfamarkaði voru „skýrð á þann hátt með gagnályktun að fjármálafyrirtækjum, sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta, sé óheimilt að stunda viðskipti með eigin hluti á slíkum markaði í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim, nema um sé að ræða viðskipti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga.“ Sagði Helgi Kauphöllina hafa vitað af viðskiptum bankana en ekkert gert. Þá má sjá á endurriti úr yfirheyrslu yfir Baldri Thorlacius, öðrum höfundi svarbréfa Kauphallarinnar, að hann taldi markaðinn almennt vita af óformlegri viðskiptavakt bankanna, eins og Kaupþings. 

Þessu mótmælti Kauphöllin á ný og sagði dóminn ekki snúast um eigin viðskipti heldur að bankarnir væru að stunda viðskiptavakt með eigin bréf. Helgi benti hins vegar á að Kauphöllinni hefði verið ljós umfangsmikil viðskipti með eigin bréf og að tilgangurinn hafi ekki verið formleg viðskiptavakt. Vísaði hann á ný í bréfaskrif FME og Kauphallarinnar þar sem Kauphöllin skrifar: „Þekkt var að bankarnir voru hver um sig með hæsta hlutdeild í viðskiptum með eigin bréf“ og „ljóst er að væntur ábati af slíkum kaupum gat verið umtalsverður.“ Sagði hann því að Kauphöllin hafi átt að vekja athygli bankanna á að viðskiptin væru ólögleg þar sem hún vissi um mikil viðskipti en að þar væri ekki um að ræða formlega viðskiptavakt eða endurkaupaáætlun.

Ábyrgð FME og Kauphallarinnar

Til að geta sett þessi greinaskrif og svo bréfaskrif FME og Kauphallarinnar í samhengi þarf að hafa í huga að FME ber ábyrgð á eftirliti með starfsemi fjármálafyrirtækja en með samningi milli FME og Kauphallarinnar fer Kauphöllin með eftirlitshlutverk með verðbréfaviðskiptum í Kauphöllinni. Eins og Kauphöllin greinir frá í einu svarbréfi sínu byggist starfsemi fyrirtækisins á trausti, en hluti af því er að allir sitji við sama borð, að leikreglur séu ljósar og að þeim sé framfylgt.

Harkalegt bréf frá FME

Ljóst er að árið 2011 taldi FME Kauphöllina ekki hafa staðið sig í eftirliti fyrir hrun. Segir í niðurstöðu athugunar þeirra frá því 16. ágúst 2011: „Með hliðsjón af framangreindu telur Fjármálaeftirlitið að Kauphöllin hafi ekki sinnt rafrænu eftirliti með íslenska markaðinum með fullnægjandi hætti fyrir bankahrun haustið 2008. Þótt Kauphöllin hafi sent ábendingu til Fjármálaeftirlitsins, dags 27. janúar 2009, um mögulega markaðsmisnotkun fjármálafyrirtækja fyrir bankahrun, þá telur Fjármálaeftirlitið að ábendingin hafi komið allt of seint, í ljósi þess að háttsemi fyrirtækjanna hafði staðið lengi yfir.“

Stofnanirnar héldu áfram að gagnrýna hvor aðra, en um jólin 2011 sagði Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, í fréttum á RÚV að FME hefði ekki notað sérstakan gagnagrunn til að fylgjast með hlutabréfaviðskiptum. Fyrrverandi forstjóri eftirlitsins svaraði því til að grunnurinn hafi ekki verið kominn í notkun fyrir hrun og því ekki geta nýst þá.

Eins og fyrr segir eru þau samskipti sem vísað er í í þessari umfjöllun hluti af því uppgjöri sem enn fer fram um ábyrgð og hlutverk aðila fyrir bankahrunið 2008. Hæstiréttur hefur þegar dæmt sekt í fyrsta málinu og líklegt er að dómur falli í Kaupþingsmálinu í næstu viku. Hvort eftirlitsaðilar séu svo betur í stakk búnir í framtíðinni til að sjá meinta markaðsmisnotkun fyrir verður að koma í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK