Spáir örlítilli hækkun á verðbólgu

Capacent gerir ráð fyrir örlítilli verðlækkun á bifreiðum, raftækjum og …
Capacent gerir ráð fyrir örlítilli verðlækkun á bifreiðum, raftækjum og húsgögnum en verð allra vöruflokka er lægra nú en fyrir tólf mánuðum. Mynd úr safni. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Capacent spáir 0,1% hækkun vísitölu neysluverðs í október. Ef sú spá gengur eftir mun tólf mánaða verðbólga hækka úr 1,8% í 1,9%. 

Þá er gert ráð fyrir 0,9% hækkun fasteignaverðs sem hefur 0,14% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar í mánuðinum. Er bent á að fasteignaverð hefur hækkað um 12,2% síðastliðna 12 mánuði. Hækkaði það mikið í sumar eða um 5,4% samkvæmt mælingu Þjóðskrár Íslands.

Auk hærra fasteignaverðs er gert ráð fyrir hækkun leiguverðs og viðhaldskostnaðar.  Samtals gerir Capacent ráð fyrir að fasteignaliður vísitölu neysluverðs hafi 0,18% áhrif á vísitöluna.

Capacent gerir jafnframt ráð fyrir örlítilli verðlækkun á bifreiðum, raftækjum og húsgögnum en verð allra vöruflokka er lægra nú en fyrir tólf mánuðum. Bent er á að enn virðast vera útsölur eða tilboð víða í verslunum og ætti það ekki að koma á óvart í ljósi gengis krónunnar en hún hefur styrkst upp á hvern einasta dag eða um rúmlega 3% frá sumarlokum.

Þá hefur heimsmarkaðsverð á olíu hækkað um 9% frá lokum september og var verð hráolíutunnunnar um 53,4 dollarar 10. október. Verð á díselolíu hefur hækkað um 1% frá síðustu verðbólgumælingu en verð bensíns hefur staðið í stað. Capacent gerir ráð fyrir 1% hækkun á eldsneytisverði en verð á olíu hefur verið á mikilli siglingu. Eldsneytisverð mun hafa 0,03% áhrif á VNV til hækkunar.

Könnun Capacent á verði flugfargjalda bendir til að litlar breytingar hafi verið á flugfargjöldum í mánuðinum.  Aldrei þessu vant hafa flugfargjöld lítil áhrif á vísitölu neysluverðs og gerum við ráð fyrir að flugfargjöld hafi 0,02% áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar.

Þá gerir Capacent ráð fyrir því að verð gistingar lækki um 5% sem hefur 0,02% áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar. Er bent á að iðulega lækki verð gistingar duglega á haustmánuðum samfara minni ferðamannastraumi.

Matvælaverð og aðrir liðir hafa óveruleg áhrif á vísitölu neysluverðs og eru að mestu óbreyttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK