Byggðin þynnist og verðið hækkar í miðbænum

Frá 1985 til 2012 hefur byggð á höfuðborgarsvæðinu þynnst mikið.
Frá 1985 til 2012 hefur byggð á höfuðborgarsvæðinu þynnst mikið. Sigurður Bogi Sævarsson

Byggð á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarna þrjá áratuga þynnst mikið og búa nú miklu færri íbúar á hvern hektara en áður. Árið 1985 voru íbúar á hvern hektara 54, en árið 2012 voru þeir komnir niður í 35. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íbúðamarkaðinn á Íslandi.

Kemur fram að nú fari töluvert meira landrými undir hvern íbúa en nokkru sinni fyrr. Því fylgi óhagræði sem felist meðal annars í auknum samgöngukostnaði og lakari nýtingu almannaþjónustu.

Í dag eru um 3.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og gert er ráð fyrir að 8.000 íbúðir verði fullbyggðar á svæðinu á árunum 2016 til 2019. Nemur það auknu framboði um 2.000 íbúðir að meðaltali á hverju ári. Skýrsluhöfundar segja þetta þó enn þá undir áætlaðri uppsafnaðri þörf sem Samtök iðnaðarins hafa áætlað, sem er á bilinu 2.500 til 3.000 á ári.

Flestar nýjar íbúðir verða byggðar á tímabilinu í Reykjavík miðað við spá bankans, eða um 3.305 talsins. Næst þar á eftir kemur Kópavogur með 1.795 íbúðir og Garðabær með 1.070 íbúðir. Gert er ráð fyrir að fæstar íbúðir verði byggðar á Seltjarnarnesi eða 104 á tímabilinu.

Mynd/Íslandsbanki

Í skýrslunni er bent á að þótt flestar íbúðir séu í Reykjavík, sé hlutfallsleg aukning mest í Mosfellsbæ, eða um 25,1% og minnst í Reykjavík (6,5%) og Seltjarnarnesi (6,1%) yfir tímabilið. Segja skýrsluhöfundar þetta athyglisvert, sérstaklega í ljósi þess að verðþróun í miðbænum og nærliggjandi svæðum beri þess merki að þörf nýbygginga þar sé hvað mest. Þá er fjölgun nýbygginga í miðbænum mest seint á spátímabilinu samkvæmt skýrslunni.

„Að öðru óbreyttu er því óhætt að gera ráð fyrir að framhald verði á hækkun verðs íbúðarhúsnæðis í miðbænum og á nærliggjandi svæðum umfram hækkanir annars staðar á höfuðborgarsvæðinu í nánustu framtíð,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK