Innistæða fyrir hærra íbúðaverði

Spáð er verulegri hækkun íbúðaverðs næstu árin.
Spáð er verulegri hækkun íbúðaverðs næstu árin. Mbl.is/Ómar

Hækkandi fasteignaverð nú helst í hendur við uppsveiflu í hagkerfinu almennt og vænkandi hag landsmanna en er ekki knúið áfram af skuldsetningu eins og fyrir hrun. Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningar Íslandsbanka, segir þetta gefa von um að innistæða sé fyrir hækkun og verðbóla sé ekki farin af stað.

Íslandsbanki spáir áframhaldandi hækkun íbúðaverðs næstu árin sem verði jafnvel veruleg í nýrri skýrslu um íslenska íbúðamarkaðinn sem kynnt var í dag. Bætt fjárhagsleg staða heimila, vöxtur ferðaþjónustu og fólksfjölgun sé meðal annars ástæður hækkunar markaðarins. Íbúðaverð hækkar um 9,3% á þessu ári, 11,4% á næsta ári og 6,6,% árið 2018 samkvæmt spá bankans.

Frétt Mbl.is: Þörf á smærri íbúðum aldrei meiri

Ingólfur lýsti þeim viðsnúningi sem hefur orðið á húsnæðismarkaðinum frá því strax eftir bankahrunið í erindi sem hann hélt þegar skýrslan var kynnt í dag. Velta á íbúðamarkaði sé nú rétt um 350 milljarðar króna og sé nærri því fjórfalt meiri en hún var árið 2009 strax eftir hrunið.

Þá taki það nú mun skemmri tíma að selja íbúðir en þá. Nú taki það það tvo mánuði að meðaltali að selja íbúð en árið 2009 tók það tvö ár. 

Meiri hækkun en fyrir hrun

Verðhækkanirnar á íbúðarhúsnæði sagði Ingólfur haldast nokkuð vel í hendur við sveiflu í hagkerfinu almennt. Þær væru drifnar áfram af kaupmáttarvexti og bættum fjárhag fólks. Laun séu að hækka hratt, störfum fjölgi og verðbólga sé lág. Þar að auki sé eignaverð að hækka, skuldir heimila að lækka.

Skuldahlutfall íslenskra heimila hafi þannig lækkað um fimmtung frá því að það var hvað hæst eftir hrun og skuldastaðan ekki verið lægri í áratug. Þetta geri fjölskyldur betur í stakk búnar að takast á við áföll.

Afleiðingin sé sú að bankinn spái verðhækkun íbúða sem verði meiri en hún var í upphafi árs 2008. Það veki upp spurningar um hvort húsnæðisbóla sé að myndast

Orsakir hækkunarinnar sagði Ingólfur hins vegar aðrar nú en þær voru þá. Mikil hækkun á launum nú haldist nánast í hendur við verðhækkun á íbúðamarkaði.

Árin 2004 til 2006 hafi verðhækkanir á íbúðum stungið launaþróun af vegna aukins aðgangs fólks að lánsfé og eftirspurnin verið knúin áfram af skuldsetningu.

„Það er ekki ástæðan nú sem gefur manni aukna trú á að það sé innistæða fyrir þessu,“ sagði Ingólfur.

Stöðugleikinn ekki endilega kominn til að vera

Þrátt fyrir að landið sé að ganga í gegnum lengsta tímabil verðstöðugleika frá árinu 2001 og bankinn spái því að verðbólga verði áfram skapleg fram á árið 2018 varaði Ingólfur við því að landsmenn trúi því að verðbólgan sé horfin úr íslenska hagkerfinu.

Landið eigi eftir að ganga í gegnum niðursveiflu eftir uppsveiflu síðustu ára. Sagan kenni að krónan hafi tilhneigingu til að gefa eftir með tilheyrandi verðbólguskoti, kaupmáttarrýrnun og lækkun raunverðs íbúða.

„Verðstöðugleiki er ekki endilega kominn til að vera,“ sagði Ingólfur.

Þá sagði hann að ekki allir hafi notið hækkunar eignaverðs síðustu árin. Hlutfall leigjenda á húsnæðismarkaði sé tiltölulega hátt í sögulegu samhengi en það hafi hækkað verulega í kjölfar hrunsins. Þrátt fyrir bætta fjárhagslega stöðu hafi hlutfallið ekki lækkað síðan.

Nú leigi einn af hverjum fimm húsnæði og það sé fyrst og fremst tekjulægsta fólkið. Það virðist fast á leigumarkaði þrátt fyrir að 80% þess telji að það sé fjárhagslega hagkvæmara fyrir það að vera í eigin húsnæði en leigu.

Áfall í ferðamannaiðnaði hefði áhrif á íbúðamarkað

Fram kemur í skýrslunni að ein af hverjum átta íbúðum í miðborg Reykjavíkur sé í útleigu á Airbnb. Gistináttaþörf ferðamanna hafi að miklu leyti verið mætt með gistingu í íbúðum.

Frétt Mbl.is: Ein af hverjum átta íbúðum í leigu á Airbnb

Varaði Ingólfur við því að ef áfall yrði í ferðamannaiðnaðinum og ferðamönnum fækkaði hefði það augljóslega veruleg áhrif á íbúðamarkað. Slíkt áfall gæti leitt til snarprar verðlækkunar á íbúðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK