Stóru pakkningarnar vinsælastar

Verslunin var opnuð í síðustu viku og segir Sigurður viðbrögðin …
Verslunin var opnuð í síðustu viku og segir Sigurður viðbrögðin hafa verið ótrúlega góð. Skjáskot

Tveggja lítra kók, Cheerios og þvottaefni eru meðal vinsælustu vara netverslunarinnar Boxið.is sem hóf starfsemi í síðustu viku. Verslunin er hugsuð þannig að hún geti sparað fólki nokkrar verslunarferðir á viku en hún býður til að mynda upp á hinar ýmsu þurrvörur, drykki og snyrtivörur. Sérstaða verslunarinnar felst að vissu leyti í heimsendingunni en viðskiptavinir geta valið sér tveggja tíma ramma til þess að fá vörurnar sendar heim, upp að dyrum. Það eru þeir Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson og Haukur Hrafn Þorsteinsson sem eiga Boxið.is.

„Ég var að læra í Bandaríkjunum og bjó þar í meira en fjögur ár. Þar nýtti ég mér svona þjónustu reglulega,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is. „Svo kom ég heim og ég og Haukur, sem er hugbúnaðarverkfræðingur, vorum sammála um að það vantaði svona verslun hérna, sérstaklega fyrir barnafólk. Haukur á þrjú ung börn og það eru mikil lífsgæði fyrir hann að geta sleppt 1-2 verslunarferðum í viku.“

Þurfa ekki að bíða í von og ótta

Sigurður segir mikla aukningu hafa verið í netverslun hér á landi síðustu misseri, bæði þar sem fólk er að panta vörur að utan og frá íslenskum netverslunum.

Hann segir að sérstaða Boxsins.is sé meðal annars í heimsendingunni en viðskiptavinir geta valið tveggja tíma afhendingaramma. „Við tókum eftir því að hjá öllum þessum íslensku netverslunum er boðið upp á heimsendingu samdægurs en útskýra það ekkert frekar. Ég hef lent í því að panta vörur og svo er sendibílstjóri hringjandi í mig allan daginn spyrjandi hvenær ég sé heima. Þannig hverfur tilgangurinn með þægindaaukanum.“

Eins og fyrr segir er hægt að velja tveggja tíma afhendingaramma hjá versluninni og viðskiptavinir eru látnir vita hvenær bíllinn leggur af stað frá vöruhúsi fyrirtækisins. Þá er hægt að fylgjast með honum á sérstökum tengli sem þeir fá sendan í skilaboðum. „Þetta á að snúast um þægindi fyrir neytandann, ekki það að bíða í von og ótta,“ segir Sigurður.

Heimsending á höfuðborgarsvæðinu kostar 1.490 krónur en ef heildarupphæð vörukaupa fer yfir 10.000 krónur þá fellur heimsendingargjaldið niður. 

Margir neytendur væru eflaust til í að geta sleppt nokkrum …
Margir neytendur væru eflaust til í að geta sleppt nokkrum verslunarferðum í viku. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Koma með vörurnar upp að dyrum

Verslunin opnaði í síðustu viku og segir Sigurður viðbrögðin hafa verið feykilega góð. „Við auglýstum þetta aðeins um helgina, bara á Facebook, en það er ótrúlegt að sjá hversu góðar viðtökurnar hafa verið. Það er þétt dagskrá í dag,“ segir hann og bætir við að það hafi augljóslega verið vöntun fyrir svona þjónustu á markaðinum.

Boxið.is býður að svo stöddu ekki upp á ferskar vörur, heldur aðeins þurr- og drykkjarvörur ásamt hreinlætis- og snyrtivörum. Sigurður segir að það sé á dagskrá að bæta ferskvöru við vöruúrvalið. „Þurrvörurnar eru meðfærilegri og með lengri líftíma. Ferskar vörur eru algjörlega á dagskrá en fyrst þurfum við aðeins að slípa kerfið til.“

Hann segir að vinsælustu vörurnar hingað til hafi verið stórar og þungar vörur eins og Cheerios pakkar og þvottaefni. „Það eru þessar vörur sem slíta innkaupapokann þinn,“ segir Sigurður og bætir við að drykkir séu einnig vinsælir en Boxið.is selur til dæmis gos í kippum. „Tveggja lítra kókið er vinsæl vara sem fólk vill eiga en nennir ekki að bera sex flöskur inn,“ segir Sigurður og bætir við að starfsmenn netverslunarinnar beri vörurnar upp að dyrum og alla leið upp sé fólk í blokk.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK