22 þúsund manns á fjórum árum

Ferðaþjónustan er bæði vinnuaflsfrek og kallar á fjölgun starfsfólks í …
Ferðaþjónustan er bæði vinnuaflsfrek og kallar á fjölgun starfsfólks í öðrum atvinnugreinum um allt land. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frá árinu 2012 hafa um 20 þúsund erlendir ríkisborgarar flust hingað til lands og ljóst að sá fjöldi hefur mætt aukinni vinnuaflseftirspurn í mannvirkjagerð og ferðaþjónustu að miklu leyti. Þá voru hátt í 1.200 starfsmenn hér á landi í september á vegum starfsmannaleiga og þjónustufyrirtækja. 

Greint er frá þessu í hagspá ASÍ fyrir árin 2016-2018 sem var kynnt í gær. Þar segir að atvinnuþátttaka hafi mælst 83,4% á fyrri hluta ársins, þ.a. 87,4% hjá körlum og 79,3% hjá konum. Sé fyrri hluti ársins borinn saman við sama tímabil árið 2009 hefur atvinnuþátttaka aukist mest á aldrinum 16-24 ára, eða um tæp 9 prósentustig, á meðan minnsta aukningin hefur verið hjá konum á aldrinum 55-74 ára. 

22 þúsund manns á fjórum árum

Þar segir að starfandi einstaklingum fjölgaði um tæplega sjö þúsund milli ára sé litið á fyrstu átta mánuði ársins. Frá árinu 2012 hefur starfandi einstaklingum á vinnumarkaði fjölgað um tæplega 22 þúsund sem er gríðarleg fjölgun á ekki lengra tímabili. Á sama tíma hefur atvinnulausum einstaklingum einungis fækkað um tæplega sex þúsund og tæplega fimm þúsund færri einstaklingar eru utan vinnumarkaðar. Þetta gefur til kynna þann mikla fjölda einstaklinga sem þurft hafa að koma inn á vinnumarkað til að mæta mikilli vinnuaflseftirspurn undanfarin ár.

Er bent á að vinnumarkaður hafi á flesta mælikvarða ekki einungis rétt úr kútnum heldur nálgast þær hæðir sem sáust fyrir hrun en atvinnuleysi mældist 3,4% á fyrri hluta ársins.

Þá hefur dregið hratt úr langtímaatvinnuleysi sem á fyrri hluta ársins mældist einungis 6,8%, sem merkir að færri en fimm hundruð einstaklingar höfðu verið án atvinnu lengur en 12 mánuði á fyrri hluta ársins. Þetta er mikill viðsnúningur frá árinu 2012 þegar um fjórðungur allra atvinnulausra höfðu verið án atvinnu í meira en tólf mánuði, eða um þrjú þúsund einstaklingar.

Mannvirki fyrir hrun, ferðaþjónusta í dag

Í spánni segir að vaxandi spenna einkenni núverandi ástæður á vinnumarkaði. Þær eru þó gjörólíkar þeim sem ríktu fyrir hrun. Starfandi einstaklingum fjölgaði um tæplega 20 þúsund á árunum 2005-2008 þar sem gríðarleg umsvif í mannvirkjagerð og framkvæmdir stórra fjárfestingaverkefna höfðu mikil áhrif á vinnumarkaði en einnig fjölgaði störfum t.d. í fjármálatengdri starfsemi. Undanfarin misseri er það gífurlegur vöxtur ferðaþjónustunnar sem hefur áhrif víða á vinnumarkaði. Bent er á að ferðaþjónustan sjálf sé bæði vinnuaflsfrek og kalli einnig á fjölgun starfsfólks í öðrum atvinnugreinum um allt land.

„Áhrifin koma bæði beint fram í fjölgun starfa í gistingu, veitingaþjónustu, samgöngum og annarri þjónustu við ferðamenn en einnig óbeint í verslun, mannvirkjagerð, matvælaiðnaði og ýmissi þjónustu við fyrirtæki í ferðaþjónustu,“ segir í spánni en hvergi sjást áhrif ferðaþjónustunnar betur en í miklum viðsnúningi á Suðurnesjum. Þar mælist atvinnuleysi nú svipað og á höfuðborgarsvæðinu eftir að hafa verið mest á landinu undanfarinn áratug. 

Starfandi einstaklingum fjölgaði um tæplega 20 þúsund á árunum 2005-2008 …
Starfandi einstaklingum fjölgaði um tæplega 20 þúsund á árunum 2005-2008 þar sem gríðarleg umsvif í mannvirkjagerð og framkvæmdir stórra fjárfestingaverkefna höfðu mikil áhrif á vinnumarkaði. mbl.is/Helgi Bjarnason

Skortur á starfsfólki vaxandi vandamál

Skortur á starfsfólki hefur farið vaxandi samkvæmt athugunum SA og Gallup hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins. Í mars á þessu ári taldi 31% stjórnenda skort vera á starfsfólki, en sama hlutfall var 28% í lok síðasta árs og 16% fyrir rúmum tveimur árum. Í nýjustu könnuninni frá því í október hefur hlutfallið hækkað enn á ný þar sem 42% stjórnenda telja skort vera á starfsfólki. Skortur á starfsfólki gerir vart við sig víðar en í mannvirkjagerð og ferðaþjónustu en í könnun SA er vakin athygli á að yfir helmingur stjórnenda í verslun og iðnaði finnur nú fyrir skorti á starfsfólki.

Nýleg greining Stjórnstöðvar ferðamála á mannaflaþörf í ferðaþjónustu gefur betri innsýn inn í stöðuna í ferðaþjónustunni. Þar kemur fram að vaxandi fjölda fyrirtækja í ferðaþjónustu skortir starfsfólk. Algengast er að fyrirtæki eigi erfitt með að fá starfsfólk í ræstingar, matreiðslu, flutninga og leiðsögn.  Líkt og í síðustu uppsveiflu hefur aðfluttum erlendum ríkisborgurum fjölgað og erlent vinnuafl verið mikilvægt til að mæta skorti á starfsfólki. Bæði eru þetta einstaklingar sem hingað flytjast búferlum og ætla sér að setjast að á Íslandi en einnig er umtalsverður fjöldi sem hingað kemur til skamms tíma í einstök verkefni. 

Algengast er að fyrirtæki eigi erfitt með að fá starfsfólk …
Algengast er að fyrirtæki eigi erfitt með að fá starfsfólk í ræstingar, matreiðslu, flutninga og leiðsögn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólöglegt að auglýsa eftir sjálfboðaliðum

Á síðasta ári voru aðfluttir  um fimmtán hundruð fleiri en brottfluttir og skýrðist það eingöngu af aðflutningi erlendra ríkisborgara þar sem á sama tíma fluttust fleiri Íslendingar frá landinu en til þess. Frá árinu 2012 hafa því um 20 þúsund erlendir ríkisborgarar flust hingað til lands, eða um 10 þúsund fleiri en brottfluttir, og ljóst að sá fjöldi hefur mætt aukinni vinnuaflseftirspurn í mannvirkjagerð og ferðaþjónustu að miklu leyti. Þróunin hefur haldið áfram það sem af er ári, á fyrri hluta þessa árs hafa fleiri erlendir ríkisborgarar flust hingað til lands heldur en allt árið 2014, og svipað margir og á síðasta ári. 

Þó er það mat ASÍ að erfitt sé að áætla nákvæmlega hve mikil fjölgun starfa hefur verið síðustu ár. Vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar og þróun búferlaflutninga gefa ákveðna mynd af þróuninni en úrtakið miðast þó einungis við þá sem hafa haft fasta búsetu hér á landi. Þeir sem hingað koma til tímabundinna starfa eru hins vegar í flestum tilfellum ekki hluti af vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar. Þetta geta verið einstaklingar sem starfa hér tímabundið á vegum starfsmannaleiga, þjónustufyrirtækja eða einstaklingar sem hingað koma á eigin vegum og ráða sig til starfa. Einnig hefur í vaxandi mæli borið á því að fyrirtæki auglýsi eftir sjálfboðaliðum í störf í ferðaþjónustu en slík starfsemi telst lögbrot.

Vinnumálastofnun heldur skrá yfir tímabundna starfsmenn á vegum starfsmannaleiga og þjónustufyrirtækja. Sé tekið mið af þeim hefur orðið gríðarleg fjölgun á þessu ári og hátt í 1.200 starfsmenn hér á landi á vegum slíkra fyrirtækja í september. Ekki liggur fyrir hversu margir af þeim starfsmönnum hafa hér fasta búsetu en sá fjöldi kann að vera óverulegur.  Stéttarfélög og skattayfirvöld halda úti virku vinnustaðaeftirliti en á þessu ári kannaði eftirlitið stöðu yfir 5.000 einstaklinga sem margir hverjir starfa í  veitingum, verslun, ferðaþjónustu og mannvirkjagerð. Í eftirlitinu hefur fjölgun tímabundinna starfsmanna verið sýnileg en einnig ber á fjölgun alvarlegri tilfella þar sem einstaklingar starfa hér á landi án skráningar og án þess að hafa kennitölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK