Vaxandi spenna í hagkerfinu

ASÍ spáir því að vöxtur einkaneyslunnar verði 7,6% þegar árið …
ASÍ spáir því að vöxtur einkaneyslunnar verði 7,6% þegar árið liggur fyrir í heild sinni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Auknar ráðstöfunartekjur heimilanna eru nú eru að mestu tilkomnar vegna launaþróunar en ekki vegna aukinna eignatekna líkt og á árunum fyrir hrun. Þá hefur aukin neysla heimilanna haldist í hendur við lækkandi skuldir ólíkt því sem var fyrir hrun. Þá var vaxandi neysla heimilanna drifin áfram af auknum lántökum.

Þetta kemur fram í hagspá ASÍ fyrir árin 2016-2018 sem kynnt var í dag.

Gangi spáin eftir verður hagvöxtur 4,7% á þessu ári og 5,4% árið 2017. Hagvöxtur verður þó öllu minni árið 2018, eða 2,5%.

Í heildina litið hefur þróunin í efnahagslífinu verið í takt við væntingar ASÍ en vöxtur bæði í ferðaþjónustu og innlendri eftirspurn hefur þó verið bæði meiri og hraðari en gert var ráð fyrir í síðustu spá. ASÍ gerir jafnframt ráð fyrir hóflegri styrkingu krónunnar allan spátímann.

Bent er á að vaxandi spenna geri nú vart við sig í hagkerfinu og útlit er fyrir frekari vöxt ferðaþjónustunnar á sama tíma og aukin innlend eftirspurn drífur kröftugan vöxt þjóðarútgjalda á fyrri hluta spátímans. Á sama tíma minna hækkandi húsnæðisverð og sterkara gengi krónunnar á þær aðstæður sem voru til staðar á árunum fyrir hrun.

Samkvæmt spá ASÍ verður vöxtur útflutnings þónokkur á næstu árum og er útlit fyrir að áframhaldandi aukning útfluttrar þjónustu þ.e. fjölgun ferðamanna drífi 6,5% vöxt útflutnings á þessu ári og 6,2% á næsta ári.

Á hinn bóginn eykst innflutningur umtalsvert yfir spátímann í takt við vöxt þjóðarútgjalda þar sem hæst ber 14,2% vöxtur á þessu ári. 

Getur leitt til ofhitnunar á vinnumarkaði

Bent er á að fyrirtæki finni í vaxandi mæli fyrir skorti á starfsfólki og getur það leitt til ofhitnunar á vinnumarkaði. Aðfluttir starfsmenn hafa að einhverju leyti slegið á spennu en vísbendingar eru um að fjölgun starfa kunni að vera vanmetin sökum aukins fjölda tímabundinna erlendra starfsmanna.

„Hætta er á að aukin spenna geti í vaxandi mæli ýtt undir launaskrið.  Hagfelld gengisþróun dregur úr verðbólguþrýstingi og er líklegt að verðbólga haldist undir og kringum verðbólgumarkmið Seðlabankans mest allt spátímabilið. Verðbólga tekur hins vegar að aukast árið 2018 þegar hægir á styrkingu krónunnar,“ segir í spánni.

Laun hækka samhliða miklum verðstöðugleika

Í spánni er bent á að þar sem heimilin hafi undanfarin misseri notið góðs af hagfelldri verðlagsþróun sem hefur leitt til kröftugs vaxtar kaupmáttar launa og ráðstöfunartekna heimilanna. Til að mynda hækkaði launavísitalan um 7,2% á síðasta ári og á fyrstu átta mánuðum þessa árs hefur vísitalan hækkað að jafnaði um 12,1%.

Laun hafa því hækkað  umtalsvert á liðnu ári og töluvert meira en á árunum fyrir hrun þegar veruleg spenna ríkti á vinnumarkaði. Aðstæður nú eru þó ólíkar þeim sem ríktu fyrir hrun að því leyti að laun hafa hækkað samhliða miklum verðstöðugleika.

Styrking gengis krónunnar og hagfelld þróun hrávöruverðs hafa haldið verðbólgu lágri en það hefur skilað sér í mikilli kaupmáttaraukningu. Kaupmáttur launa jókst um 5,4% á síðasta ári og á fyrstu átta mánuðum ársins hefur kaupmáttur launa aukist um 10,4% en vísitala kaupmáttar launa hefur aldrei mælst hærri.

Launahækkanir drifu 10,8% vöxt ráðstöfunartekna heimilanna á síðasta ári og vógu m.a. upp hægan vöxt á tilfærslum hins opinbera til heimilanna. Stærstur hluti tilfærslutekna heimilanna eru greiðslur frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum sem jukust um 5,3% á síðasta ári. Greiðslur vegna barnabóta, vaxtabóta og atvinnuleysisbóta drógust aftur á móti töluvert saman.

Laun hafa hækkað umtalsvert á liðnu ári og töluvert meira …
Laun hafa hækkað umtalsvert á liðnu ári og töluvert meira en á árunum fyrir hrun þegar veruleg spenna ríkti á vinnumarkaði. Aðstæður nú eru þó ólíkar þeim sem ríktu fyrir hrun að því leyti að laun hafa hækkað samhliða miklum verðstöðugleika. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Hærri ráðstöfunartekjur vegna hærri launa

Neysla heimilanna hefur aukist samhliða bættri fjárhagsstöðu undanfarin ár en vöxturinn getur ekki talist mikill í sögulegu samhengi, eða um 2,5% að meðaltali á árunum 2011-2015. Á síðasta ári jókst einkaneysla um 4,3% sem var undir væntingum ASÍ frá síðustu haustspá þegar að 4,6% vexti var spáð. Heimilin hafa því einnig ráðstafað auknum tekjum í sparnað og niðurgreiðslu skulda. Þegar leið á síðasta ár sáust þó skýr merki um aukna neyslu heimilanna. Á fjórða ársfjórðungi í fyrra jókst neyslan um 5,8% milli ára, sem var töluvert umfram meðalvöxt ársins.

Er bent á að þróun neyslu og fjárhagsstöðu heimilanna sé um þessar mundir gjörólík því sem sást á árunum 2003-2007 þegar einkaneyslan jókst að meðaltali um 7,2% árlega.

„Munurinn liggur að miklu leyti í því að þróun ráðstöfunartekna og skulda heimilanna hefur verið með öðrum hætti nú,“ segir í spánni. „Auknar ráðstöfunartekjur nú eru að mestu tilkomnar vegna launaþróunar en ekki vegna aukinna eignatekna líkt og á árunum fyrir hrun. Enn fremur hefur aukin neysla heimilanna haldist í hendur við lækkandi skuldir heimilanna ólíkt því sem átti sér stað fyrir hrun þegar vaxandi neysla heimilanna var drifin áfram af auknum lántökum.“

Vöxtur einkaneyslunnar nái hápunkti í ár

Forsendur fyrir umtalsverðum vexti einkaneyslu er á spátímanum en á fyrri hluta þessa árs jókst einkaneysla um 7,7% og þar af 8,2% á öðrum ársfjórðungi. Svipaða þróun má greina úr nýlegum tölum um kortaveltu heimilanna sem jókst um 8,6% á þriðja ársfjórðungi. 

Þá er vitnað í væntinga- og stórkaupavísitölur Gallup en þær benda til þess að heimilin hyggi í auknum mæli á stórkaup, utanlandsferðir og bifreiðakaup. ASÍ spáir því að vöxtur einkaneyslunnar verði 7,6% þegar árið liggur fyrir í heild sinni. Hvernig vöxtur einkaneyslunnar verður á næstu árum mun hins vegar ráðast af því hvernig skuldir heimilanna þróast. Haldi neyslan áfram að þróast í takt við kaupmátt líkt og reyndin hefur verið undanfarin ár telur ASÍ vöxturinn nái hámarki á þessu ári en verði að jafnaði 4,6% á árunum 2016-2017. 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK