Boða skýrslu um FIH

Ekki hafa fengist skýringar á því af hverju Seðlabankinn gekk …
Ekki hafa fengist skýringar á því af hverju Seðlabankinn gekk að skilmálum árið 2010 sem leiddu til þess að stórtjón hlaust af sölu FIH-bankans. Ljósmynd/Adam Mørk/3XN

Seðlabanki Íslands áformar að láta vinna skýrslu um aðdraganda og eftirmál þess að bankinn veitti Kaupþingi þrautavaralán að fjárhæð 500 milljónir evra 6. október árið 2008. Mun skýrslan einnig taka til söluferlis á hinum danska FIH-banka sem Seðlabankinn tók allsherjarveð í á grundvelli lánveitingarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum verður skýrslan gerð opinber.

Mun Seðlabankinn hafa tekið ákvörðun um gerð skýrslunnar snemma á síðasta ári.

„Gerð skýrslunnar hefur dregist vegna mikilla anna þeirra sem til málsins þekkja,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri á skrifstofu seðlabankastjóra.

Þá segir hann að sá þáttur sem sérstaklega lýtur að sölu FIH-bankans sé enn ekki að fullu til lykta leiddur. Segir Stefán Jóhann að horft verði til þess hvort niðurstaða söluferlis bankans geti skýrst frekar frá því sem nú er.

„Seðlabankinn leggur áherslu á að skýrslan verði vönduð og þar verði birtar þær upplýsingar sem máli skipta í eins ríkum mæli og unnt er, þar með talið vegna trúnaðarreglna,“ bætir hann enn fremur við.

Morgunblaðið hefur á undanförnum árum fjallað ítarlega um söluferlið á FIH-bankanum sem leiddi til þess að endurheimtur Seðlabankans urðu mun minni en talið var að yrði þegar þrautavaralánið til Kaupþings var veitt. Í umfjöllun blaðsins hefur meðal annars verið stuðst við ítarlega rannsókn danska viðskiptablaðamannsins Jakob Martini hjá viðskiptablaðinu Finanas, á málefnum bankans. Þar hefur verið sýnt fram á að dönsk stjórnvöld settu mikinn þrýsting á Seðlabanka Íslands að selja FIH-bankann undir árslok 2010.

Í samningi milli Seðlabankans og þeirra sem keyptu bankann var kveðið á um að niðurfærslur á eignasafni bankans yrðu dregnar frá kaupverðinu sem sátt náðist um. Um samningsákvæðin segir Jakob Martini:

„Hið sniðuga var að Íslendingarnir fengu ekki hlutdeild í vöxtunum sem FIH endurheimti af hinum niðurfærðu lánum.“

Þannig tókst nýjum eigendum bankans að afskrifa lánasöfn hans en hafa af þeim tekjur um leið. Þannig drógu þeir ekki úr tekjum bankans en náðu að koma í veg fyrir að þeir þyrftu að greiða 62% af upprunalegu kaupverði bankans.

Þeir aðilar sem keyptu bankann árið 2010 munu að öllum líkindum hagnast um áttatíu milljarða íslenskra króna á sölu hans fyrir lok þessa árs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK