Bakarar brutu gegn jafnréttislögum

Á kökunni áttu að vera myndir af brúðum úr Sesame …
Á kökunni áttu að vera myndir af brúðum úr Sesame Street.

Breskur dómstóll hefur nú staðfest úrskurð þess efnis að bakarí þar í landi hafi brotið gegn jafnréttislögum þegar stjórnendur þess neituðu að útbúa köku með slagorði til stuðnings hjónaböndum samkynhneigðra. 

Greint er frá þessu á vef Sky News.

Bakarískeðjan Ashers Baking Company, sem stofnuð var í Belfast á Norður-Írlandi, neitaði að útbúa köku fyrir aðgerðasinnann Gareth Lee sem átti að sýna Sesamstrætisbrúðurnar Bert og Ernie ásamt merki baráttuhópsins Queerspace.

Fjölskyldan á bak við Ashers, McArthur-fjölskyldan, tók í fyrstu á móti pöntuninni en neitaði síðar að gera kökuna þar sem þau trúa því að hjónaband ætti aðeins að vera milli karls og konu.

Lee leitaði réttar síns og komst dómari í málinu að þeirri niðurstöðu að bakaríið hefði brotið gegn jafnréttislögum og sektaði það um 500 pund, jafnvirði um 70.000 íslenskra króna.

Fyrri frétt mbl.is: Ólöglegt að baka ekki hinseginkökuna

Ashers áfrýjaði dómnum, sem hefur nú verið staðfestur. Sögðu stjórnendur fyrirtækisins að þeir gætu ekki með góðri samvisku útbúið köku sem þeim fyndist ýta undir synd.

Ashers rekur sex bakarí í Bretlandi og Írlandi og er með rúmlega 80 manns í vinnu.

Lee greiddi bakaríinu 36,50 pund fyrir kökuna þegar hann pantaði hana en var tveimur dögum síðar tilkynnt að bakaríið myndi ekki búa hana til.

Við málsmeðferðina hélt framkvæmdastjóri Ashers, Daniel McArthur, því fram að kynhneigð Lee hefði aldrei skipt máli, heldur skilaboðin sem hann vildi að bakaríið setti á kökuna. Lee hélt því fram að bakaríið hefði reynt að gera lítið úr honum.

Fyrir utan dómsalinn í dag sagði fyrrnefndur McArthur að nú myndi hann ráðfæra sig við lögmenn sína varðandi framhaldið. „Ef jafnréttislögin þýða að fólki sé refsað fyrir að neita stuðningi við baráttumál annarra þarf að endurskoða lögin,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK