Nýtt vöruhús SS í Þorlákshöfn

Athafnasvæði SS við höfnina í Þorlákshöfn er nú tæpir 9.500 …
Athafnasvæði SS við höfnina í Þorlákshöfn er nú tæpir 9.500 fermetrar að stærð. Aðsend mynd

Nýtt vöruhús Sláturfélags Suðurlands hefur verið tekið í notkun í Þorlákshöfn og eru vöruhús fyrirtækisins þar nú alls rúmlega 3.500 fermetrar að stærð. Athafnasvæði SS við höfnina í Þorlákshöfn er nú tæpir 9.500 fermetrar og í tilkynningu segir að það tryggi búvörudeild félagsins gott rými til vaxtar á komandi árum.

Í febrúar 2007 keypti SS 511 fermetra vöruhús við höfnina í Þorlákshöfn að Hafnarskeiði 12 ásamt 5.557 fermetra lóð auk þess að gera samkomulag við Sveitarfélagið Ölfus um úthlutun á viðbótarlóð að Hafnarskeiði 10a við hlið lóðarinnar.  Nýtt deiliskipulag var síðan samþykkt í febrúar 2013 þar sem lóðirnar voru sameinaðar og er svæðið eins og fyrr segir 9.500 fermetrar.  

Undir lok árs 2013 hófust síðan framkvæmdir við 1. áfanga með  byggingu á 1.500 fermetra vöruhúsi. Vöruhúsið var tekið í notkun haustið 2014 og hefur reynst vel í alla staði. Lokaáfangi uppbyggingar á vöruhúsum í Þorlákshöfn lauk síðan með byggingu á öðru 1.500 fermetra vöruhúsi nú í október en framkvæmdir hófust í ársbyrjun. Samtals eru því vöruhús SS í Þorlákshöfn rúmlega 3.500 fermetrar að stærð.

„SS hefur átt mjög góða samvinnu við Landstólpa sem byggði bæði vöruhúsin. Húsin eru afar vönduð í alla staði og framkvæmdir hafa gengið með afbrigðum vel. Landstólpi hefur mikla reynslu á þessu sviði enda hefur fyrirtækið byggt tugi húsa um allt land á undanförnum árum.   Auk Landstólpa komu að verkinu fjöldi góðra verktaka á Suðurlandi. Verkfræðistofan Ferill sem SS hefur átt langt og farsælt samstarf við sá um hönnun, umsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum. Vöruhúsin voru eingöngu fjármögnuð úr rekstri SS enda fjárhags- og lausafjárstaða félagsins góð,“ segir í fréttatilkynningu. Þar segir jafnframt að aðstaðan í Þorlákshöfn sé SS mjög mikilvæg vegna uppbyggingar við sölu á Yara-áburði.  Árlega fara í gegnum aðstöðu félagsins í Þorlákshöfn um 10 þúsund tonn af áburði.

Með nýju vöruhúsi er lokið uppbyggingu félagsins í Þorlákshöfn. Nýtt vöruhús gefur möguleika til kaupa á áburði á þeim tíma sem innkaupsverð er hvað hagkvæmast, en það og varðveisla á gæðum áburðarins frá verksmiðju til bónda eru veigamikil atriði til að tryggja bændum gæðaáburð frá Yara með hagkvæmum hætti.

SS verður með opið hús að Hafnarskeiði 12 í Þorlákshöfn þann 3. nóvember frá klukkan 16-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK