Mælt fyrir hærri eiginfjárgrunni

Fjármálaeftirlitið birtir ekki upplýsingar um lágmarkskröfu stofnunarinnar um eiginfjárgrunn bankanna …
Fjármálaeftirlitið birtir ekki upplýsingar um lágmarkskröfu stofnunarinnar um eiginfjárgrunn bankanna en bankarnir ákveða sjálfir hvort þeir birta kröfuna opinberlega. mbl.is/Ómar Óskarsson

Helsta niðurstaða könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins hjá Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum var sú að mælt var fyrir um hærri eiginfjárgrunn en sem nemur 8% af áhættugrunni hjá bönkunum þremur. Ákvörðunin er grundvöllur nýrrar lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn sem hlutaðeigandi bönkum ber að fullnægja auk þess sem þeim ber að viðhalda samanlagðri kröfu um eiginfjárauka. Þá beindi Fjármálaeftirlitið ýmsum athugasemdum og ábendingum til bankanna og fór fram á viðeigandi úrbætur í þeim tilvikum þegar gerðar voru athugasemdir.

Greint er frá  þessu á vef Fjármálaeftirlitsins. Þar segir að eftirlitið birti ekki upplýsingar um lágmarkskröfu stofnunarinnar um eiginfjárgrunn bankanna en bankarnir ákveði sjálfir hvort þeir birti kröfuna opinberlega.

Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. skiluðu Fjármálaeftirlitinu ICAAP-skýrslum, miðað við ársreikning 2015, í mars og apríl 2016. Fjármálaeftirlitið sendi bönkunum drög að niðurstöðum könnunar- og matsferlisins í júlí 2016 þar sem bankarnir fengu tækifæri til að koma á framfæri andmælum, sbr. IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Andmæli bankanna þriggja bárust í ágúst og september 2016. Fjármálaeftirlitið hefur eins og fyrr segir lokið könnunar- og matsferlinu hjá bönkunum þremur og sendi þeim skýrslur um niðurstöður í byrjun mánaðar. 

Í ferlinu var meðal annars lagt mat á viðskiptaáætlanir bankanna með áherslu á þætti sem gætu talist ógn við lífvænleika viðskiptalíkana og sjálfbærni viðskiptastefnu þeirra. Við mat á stjórnarháttum var lögð áhersla á fyrirtækja- og áhættumenningu bankanna. Þá var við mat á útlána- og samþjöppunaráhættu meðal annars skoðað hugsanlegt vanmat staðalaðferðar, lántaka- og geirasamþjöppun og samþjöppun í vöruframboði og tryggingum auk þess sem lögð var áhersla á virkni lánagreiningar og útlánaeftirlits hjá bönkunum. Við mat á markaðsáhættu voru vaxtaáhætta og hlutabréfaáhætta í veltubók og fjárfestingabók skoðaðar, auk gjaldeyrisáhættu og verðtryggingaráhættu. Jafnframt var lagt mat á rekstraráhættu, þ.m.t. laga- og stjórnmálaáhættu, og lausafjár- og fjármögnunaráhættu með sérstaka áherslu á viðbúnaðaráætlanir. Auk þess voru umgjörð álagsprófa og áhrif fyrirhugaðrar hækkunar á samanlagðri kröfu um eiginfjárauka skoðuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK