14% tekjuvöxtur hjá Nýherja

Sala á vöru og þjónustu Nýherja nam 3,4 milljörðum króna …
Sala á vöru og þjónustu Nýherja nam 3,4 milljörðum króna á ársfjórðungnum og er um að ræða 13,6% tekjuvöxt frá sama tíma í fyrra. Sölutekjurnar nema 10,5 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins og er það aukning um 9,2% milli ára. Ljósmynd/Nýherji

Heildarhagnaður Nýherja á þriðja ársfjórðungi nam 93 milljónum króna og 204 milljónum fyrstu níu mánuði ársins. Þetta kemur fram í ársfjórðungauppgjöri Nýherja sem birt var í gær.

Sala á vöru og þjónustu Nýherja nam 3,4 milljörðum króna á ársfjórðungnum og hafa tekjur vaxið um 13,6% frá sama tíma í fyrra. Sölutekjurnar nema 10,5 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins og er það 9,2% meira en á sama tímabili í fyrra.

Framlegð fyrirtækisins nam 860 milljónum króna á ársfjórðungnum. EBITDA, það er rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagsnliði, nam 686 milljónum króna og 204 milljónum fyrstu níu mánuði ársins.

Eiginfjárhlutfall var 32,5% í lok þriðja ársfjórðungs en 30,8% í lok þess annars.

„Rekstur Nýherjasamstæðunnar var á áætlun á þriðja fjórðungi og jákvætt að tekjuvöxtur var meiri á fjórðungnum heldur en fyrripart árs,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja, í tilkynningu. Hann segir að afkoman á árinu sé viðunandi, svipuð og í fyrra, en það sem sé einnig jákvætt sé að vaxtaberandi skuldir hafi lækkað umtalsvert og að eiginfjárstaða félagsins haldi áfram að styrkjast. 

„Almennt gengur rekstur Nýherja og dótturfélaga vel, sérstaklega í hugbúnaðartengdri starfsemi þar sem tekjuvöxtur hefur verið umtalsverður. Til að mynda voru tekjur Tempo á fjórðungnum 3,2 milljónir Bandaríkjadalir og 9,4 milljónir Bandaríkjadalir á árinu, sem er 43% aukning á þriðja ársfjórðungi. Við sjáum svo einnig töluverða tekjuaukningu hjá Applicon AB, TM Software og hugbúnaðarsviði Nýherja. Það er því góð eftirspurn eftir okkar lausnum og eitt helsta viðfangsefnið okkar er að ná að anna henni en jafnframt gæta að kostnaði í rekstrinum,“ segir Finnur.  

Hann segir það afar góð tíðindi að Applicon í Svíþjóð hafi gengið frá stórum samningi í lok fjórðungsins um sölu og innleiðingu á SAP-kjarnabankalausnum fyrir SBAB Bank, sem sé 5. stærsti bankinn í Svíþjóð. „Þetta er tímamótasamningur sem hefur verið lengi í undirbúningi og byggir á þekkingu og lausnum sem þróaðar hafa verið innan okkar vébanda á undanförnum árum. Að innleiðingu lokinni mun Applicon reka og viðhalda bankakerfum fyrir tvo af tíu stærstu bönkum í Svíþjóð, en í því felst mikil viðurkenning á þeirri reynslu og þeim gæðum hugbúnaðarlausna sem Applicon hefur yfir að ráða fyrir fjármálamarkaði,“ segir Finnur.     

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK