22% fjölgun gjaldþrota

Undanfarið ár hefur gjaldþrotum fjölgað hlutfallslega mest í fjármála- og …
Undanfarið ár hefur gjaldþrotum fjölgað hlutfallslega mest í fjármála- og vátryggingastarfsemi, þar sem þeim fjölgaði úr 45 í 71 frá fyrra tímabili (58%). mbl.is/Golli

Gjaldþrotum fyrirtækja hefur fjölgað um 22% undanfarna tólf mánuði samanborið við árið á undan. Alls hafa 880 fyrirtæki verið tekin til gjaldþrotaskipta á Íslandi frá því í september 2015. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofu Íslands.

„Í september 2016 voru 60 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta. Gjaldþrotum fyrirtækja síðustu 12 mánuði, frá október 2015 til september 2016, hefur fjölgað um 22% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 880 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu, borið saman við 722 á fyrra tímabili,“ segir á vef Hagstofu Íslands.

Undanfarið ár hefur gjaldþrotum fjölgað hlutfallslega mest í fjármála- og vátryggingastarfsemi, þar sem þeim fjölgaði úr 45 í 71 frá fyrra tímabili (58%). Einnig var yfir 50% fjölgun gjaldþrota í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, úr 123 í 190 (54%), og í upplýsingum og fjarskiptum, þar sem þeim fjölgaði úr 37 í 56 frá fyrra tímabili (51%).

Hlutfallslega fækkaði gjaldþrotum mest í fasteignaviðskiptum, úr 91 í 77 (15%), og í rekstri gististaða og veitingarekstri, þar sem þeim fækkaði úr 60 í 52 frá fyrra tímabili (13%).

19% aukning í nýskráningum

Nýskráningar einkahlutafélaga í september 2016 voru 240. Síðustu 12 mánuði, frá október 2015 til september 2016, hefur nýskráningum einkahlutafélaga fjölgað um 19% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 2.689 ný einkahlutafélög skráð á tímabilinu, borið saman við 2.255 á fyrri 12 mánuðum.

Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í flutningum og geymslu, þar sem þeim fjölgaði úr 39 í 65, eða um 67% á síðustu 12 mánuðum. Meðal annarra greina þar sem nýskráningum hefur fjölgað má nefna leigustarfsemi og ýmsa sérhæfða þjónustu þar sem fjölgunin var úr 169 í 249 nýskráningar (47%), fasteignaviðskipti þar sem nýskráningum fjölgaði úr 318 í 413 (30%) og byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð þar sem þeim fjölgaði úr 272 í 353 (30%). Nýskráningum fækkaði í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum um 4% frá fyrra tímabili (úr 283 í 272).

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK