Leggja mikið upp úr þjónustulundinni

Verslunin Rangá fagnar 85 ára afmæli í dag.
Verslunin Rangá fagnar 85 ára afmæli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verslunin Rangá í Skipasundi fagnar 85 ára afmæli í dag. Þá hefur hún verið í eigu sömu fjölskyldunnar í 45 ár. „Pabbi minn tók við versluninni 1. nóvember 1971 og rak hana þar til ég tók við 1. janúar 2010,“ segir Kristbjörg Agnarsdóttir, einn eigenda og rekstaraðili Rangár í samtali við mbl.is.

Hún segir það gríðarlega mikla vinnu að reka svona verslun en hún og maður hennar, Konráð Sveinsson, standa vaktina flesta daga en Rangá er opin frá 10 á morgnana til 10 á kvöldin.

Þau eru með 7-8 starfsmenn í vinnu og það er fólk á öllum aldri. „Þetta eru menntaskólakrakkar upp í fullorðið fólk. Það er voða gott að hafa blandaðan aldurshóp,“ segir Kristbjörg.

Hjónin Kristbjörg Agnarsdóttir og Konráð Sveinsson, ásamt Kristrúnu Kolbeinsdóttur, sem …
Hjónin Kristbjörg Agnarsdóttir og Konráð Sveinsson, ásamt Kristrúnu Kolbeinsdóttur, sem starfar í búðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Raða í poka og aðstoða fólk inn

Síðustu ár hafa sífellt fleiri hverfisverslanir eins og Rangá lagt upp laupanna enda getur reksturinn verið erfiður. Kristbjörg segir reksturinn ganga þokkalega en hún á erfitt með að segja til um hvað það sé sem skilur Rangá frá öðrum svipuðum verslunum sem hefur þurft að loka. Hún segist þó hafa heyrt að fólk kunni að meta þjónustuna og viðmótið.

 „Við heyrum að fólki finnist vera gott andrúmsloft hjá okkur og vinalegt viðmót. Við leggjum mikið upp úr þjónustulundinni, röðum í poka og aðstoðum fólk inn í húsið ef það þarf. Við höfum heyrt að fólki finnist voðalega gott að koma til okkar, að það fái góða þjónustu og að það sé allt til hérna.“

"Við höfum heyrt það að fólki finnist voðalega gott að koma til okkar, að það fái góða þjónustu og að það sé allt til hérna.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Krakkar geta komið með miða

Hún segir að fólki finnist einnig gott að hafa verslun í hverfinu sem það getur sent börnin sín út í án þess að fara yfir mjög stórar umferðargötur. „Fólk veit það að það getur sent börnin út með miða og við hjálpum þeim,“ segir Kristbjörg sem segist eiga fjölmarga fastakúnna.

„Þeir eru rosalega margir, bæði fólk í hverfinu og gamlir viðskiptavinir sem hafa flutt en halda tryggð við okkur,“ segir hún.

Kristbjörg segir ekkert annað í stöðunni en að halda rekstrinum áfram. „Á meðan fólk í hverfinu gerir sér grein að það þurfi að versla í búðinni svo hún geti verið áfram er rekstrargrundvöllur fyrir henni. Reksturinn hefur allavega gengið þokkalega vel hingað til.“

Ekki verður haldið sérstaklega upp á 85 ára afmælið en boðið var upp á kaffi og kleinur í búðinni í dag. „Við héldum veglega upp á 80 ára afmælið og gerum það líka þegar við verðum níræð.“

Verslunin stendur við Skipasund 56
Verslunin stendur við Skipasund 56 mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK