Pundið á uppleið í kjölfar Brexit-úrskurðar

Gengi pundsins hefur hækkað um 1,4% í dag.
Gengi pundsins hefur hækkað um 1,4% í dag. AFP

Pundið styrktist í dag eftir að breskur dóm­stóll komst að þeirri niðurstöðu að það væri í hönd­um þings­ins, ekki rík­is­stjórn­ar­inn­ar, að ákveða að hefja út­göngu­ferli rík­is­ins úr Evr­ópu­sam­band­inu. Pundið hefur átt erfitt undanfarna mánuði, allt frá því að Bretar kusu að ganga úr sambandinu í júní, og hefur það lækkað um 15% í verði gagnvart Bandaríkjadalnum.

Pundið styrktist í dag gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heims. Þá hefur Englandsbanki lýst því yfir að hann geri ekki ennþá ráð fyrir því að lækka stýrivexti á þessu ári.

„Pundið fékk loksins góðar fréttir,“ er haft eftir Kathleen Brooks, sérfræðingi hjá kauphöllinni í Lundúnum.

Í hádeginu hafði gengi pundsins styrkst um 1,4% gagnvart Bandaríkjadalnum og stóð í 1,2473. Er þetta mesta styrking pundsins síðan 14. júlí. Þá styrktist gengi pundsins gagnvart evrunni um 1,6% og stendur í 0,88.

Um tveimur tímum áður en úrskurðurinn var tilkynntur hafði Englandsbanki greint frá ákvörðun sinni um að halda stýrivöxtum óbreyttum út árið. Bankinn lækkaði stýrivexti sína í fyrsta skipti í sjö ár í ágúst.

Gagnvart íslensku krónunni stendur gengi pundsins í 138,85 krónum og hefur það lækkað um 28% á þessu ári samkvæmt heimasíðu Íslandsbanka. 

Frétt Bloomberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK