Kvika lýsir vilja til þess að gera gagntilboð í Virðingu

Virðing hefur sent endurnýjað tilboð til hluthafa í Kviku með …
Virðing hefur sent endurnýjað tilboð til hluthafa í Kviku með samruna fjármálafyrirtækjanna í huga. mbl.is/Ómar

Stjórn Kviku banka mælir ekki með því við hlutahafa sína að taka nýju og endurbættu tilboði Virðingar í allt hlutafé Kviku. Stjórnin hefur gert forsvarmönnum Virðingar grein fyrir því að hún telji markvissari leið til sameiningar að Kvika geri hluthöfum Virðingar tilboð um kaup á bréfum þeirra.

Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu hefur Virðing átt í samskiptum við helstu hluthafa Kviku um kaup á bréfum í bankanum með sameiningu fjármálafyrirtækjanna í huga. Um miðjan október sendu forsvarmenn Virðingar stjórn Kviku formlegt tilboð sem beint var til eigenda bankans. Stjórnin mat tilboðið hins vegar ekki nægilega hagstætt til þess að ástæða væri til þess að senda það áfram til hluthafa.

Virðing 31% í sameinuðu félagi

Í byrjun nóvember sendi Virðing svo endurbætt tilboð til stjórnar Kviku. Í tilboðinu er Kvika banki verðmetinn á tæplega 6,6 milljarða króna en eigið fé bankans var 6,2 milljarðar í lok september síðastliðins. Á móti er verðmæti Virðingar metið á tæplega 3 milljarða króna þannig að verðmæti hlutafjár Virðingar yrði um 31% í sameinuðu félagi á móti 69% hlutafjár Kviku.

Samkvæmt tilboðinu myndi hluthöfum Kviku gefast kostur á að fá söluvirði allt að helmings hlutafjár síns greitt í reiðufé og afganginn í formi hlutafjár í sameinuðu félagi. Hluthafar með minna en 1% hlut í Kviku myndu þó geta selt allan sinn hlut fyrir reiðufé.

Virðing setur það skilyrði fyrir tilboðinu að eigendur 2/3 hlutafjár í Kviku gangi að því og samþykki sameiningu félaganna, auk þess sem hluthafar Kviku samþykki að selja Virðingu að minnsta kosti 20% hlutafjár. Þann hluta sem greiddur yrði með reiðufé hyggst Virðing fjármagna með útgáfu nýs hlutafjár.

Samlegð og tekjuaukning

Ljóst er að stjórnendur Virðingar sjá mikil tækifæri í samruna fjármálafyrirtækjanna tveggja. Samlegðaráhrif eru metin á um hálfan milljarð króna á ári auk þess sem tækifæri til tekjumyndunar aukist verulega. Nýr banki yrði leiðandi á öllum sviðum fjárfestingarbankastarfsemi, með sambærilegar tekjur og Íslandsbanki og Landsbanki hafa á því sviði. Sameinaður banki yrði leiðandi í eignastýringu með nærri 220 milljarða króna í stýringu, auk verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar. Fram kemur í tilboði Virðingar að lagt er til að félögin yrðu sameinuð undir nafni Kviku banka.

Mæla ekki með tilboðinu

Stjórn Kviku tók tilboð Virðingar til umfjöllunar á fundi í síðustu viku og framsendi tilboðið í kjölfarið til hluthafa. Ljóst er að áhugi á samruna er fyrir hendi innan Kviku. Stjórnin mælir hins vegar ekki með því að hluthafar taki tilboðinu á grundvelli þess að verðmæti Virðingar sé metið hlutfallsleg of hátt í tilboðinu miðað við verðmæti Kviku. Þá séu fyrirvarar og skilyrði tilboðsins, meðal annars varðandi fjármögnun þess, flókin og óaðgengileg. Stjórn Kviku telur að markvissari leið til sameiningar sé að Kvika geri hluthöfum Virðingar kauptilboð gegn greiðslu reiðufjár og lýsir stjórnin sig reiðubúna til viðræðna á þeim grundvelli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK