Meiri verðbólga þrátt fyrir sterka krónu

Verð á fötum og skóm hækkaði um 1,6% í nóvember. …
Verð á fötum og skóm hækkaði um 1,6% í nóvember. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Föt og skór hækkuðu um rúm 1,6% í verði í nóvembermánuði. Að sögn greiningardeildar Íslandsbanka kemur sú hækkun á óvart þar sem spáð hafi verið lækkun í þessum vöruflokkum eftir mikla styrkingu krónunnar undanfarna mánuði.

Í Morgunkorni deildarinnar í dag segir að alfarið megi rekja þessa hækkun til 2,1% hækkunar á fötum, þar sem skór lækkuðu um tæp 0,5% milli mánaða.

12 mánaða taktur verðbólgunnar hækkaði í nóvember þrátt fyrir umtalsverða styrkingu krónunnar síðustu mánuði. Segir greiningardeildin hraðan hækkunartakt íbúðaverðs og fyrrnefnda hækkun á fataverði helstu skýringar þess að spá þeirra um 0,2% lækkun vísitölu neysluverðs (VNV) gekk ekki eftir, en vísitalan lækkaði einungis um 0,02% á milli mánaða.

Verðbólga á 12 mánaða grunni jókst úr 1,8% í október í 2,1% í nóvember miðað við nýbirtar tölur Hagstofunnar. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,41% í nóvember og miðað við þá vísitölu mælist áfram verðhjöðnun, eða sem nemur 0,3% undanfarna 12 mánuði.

Hækkun íbúðaverðs helsti áhrifavaldurinn

Sem fyrr segir var hækkun íbúðaverðs, eins og það endurspeglast í VNV, helsti áhrifavaldur til hækkunar vísitölunnar að þessu sinni. Húsnæðisliðurinn hækkaði í heild um 0,9% (0,27% áhrif í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga um 1,4% (0,22% í VNV), en sá liður byggir að mestu á verðþróun íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði verð á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu mest, eða um 2,5%, en sérbýlin hafa hækkað hratt undanfarna mánuði og mælist 12 mánaða hækkunartaktur þeirra (14,3%) nú hraðari en hækkunartaktur fjölbýlis á höfuðborgarsvæði (12,7%) sem og verðhækkun á landsbyggðinni (13,7%). Þá hafði greidd húsaleiga áhrif til 0,05% hækkunar VNV, en viðhaldsþáttur húsnæðisliðar hins vegar 0,01% lækkunaráhrif.

Greiningardeildin segir að þó að það séu greinilegar undantekningar hefur styrking krónu víða skilað sér. Matur og drykkur lækkaði t.d. í verði um tæp 0,7% sem er öllu meiri lækkun en reiknað var með. Húsgögn og heimilsbúnaður lækkaði líka um tæp 0,7% í verði og bifreiðaverð sömuleiðis. Þá lækkaði verð á lyfjum um 2,4% og eldsneytisverð um 0,7%.

Deildin telur að verðbólga verði áfram nokkuð undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Spáir greiningardeildin til bráðabirgða 0,3% hækkun VNV í desember, 0,6% lækkun í janúar og 0,5% í febrúar. Verðbólga mælist skv. þeirri spá 1,9% í febrúar. Hækkunin í desember gæti þó orðið minni þar sem þegar hefur orðið lækkun á eldsneytisverði og viðhaldsþætti húsnæðisliðar auk þess sem fataliðurinn kann að þróast með hagfelldari hætti eftir hækkunina nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK